143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[15:15]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir hvert einasta orð sem fram kom hjá nöfnu minni, hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur, hér áðan. Það er með hreinum ólíkindum að þingmenn skuli leyfa sér að koma inn í umræðuna sem á sér stað um heimsmetið — munið eftir 150 milljörðunum, verðmiðanum sem menn settu á þetta? (SSv: 300.) Upphaflega voru þetta náttúrlega 300 milljarðar, en 150 við kynningu á frumvörpunum. Menn gera ekki svo lítið að sitja einu sinni undir þessari umræðu. Formaður fjárlaganefndar hefur ekki sést hér alla umræðuna en kemur svo hingað og sakar þingmenn um málþóf. Hún sinnti greinilega ekki þingstörfum í gær þegar við greiddum atkvæði um 20 mál, 20 þingmál sem fóru hér í gegn í gær. Það er algerlega nýtt fyrir mér á mínum 11 ára ferli sem þingmaður ef það er hluti af málþófi að afgreiða 20 þingmál á einum degi. Og þau 20 þingmál voru rædd í síðustu viku. Það telst bara býsna greið leið fyrir mál á lokadögum þings að fá hér (Forseti hringir.) 20 mál í gegn bara sisvona.

Virðulegi forseti. Hættið að (Forseti hringir.) tala svona til okkar þingmanna sem (Forseti hringir.) erum hér að vinna vinnuna okkar. (Forseti hringir.) Ég kalla eftir því að stjórnarþingmenn sinni (Forseti hringir.) störfum sínum, sýni ábyrgð, séu hér í þingsal (Forseti hringir.) og ræði málin af alvöru í staðinn fyrir að reyna (Forseti hringir.) að þagga niður í okkur hinum.