143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[15:17]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Við erum hér að ræða stórt mál ríkisstjórnarinnar sem sett hefur verið á dagskrá og umræða hófst um hér í gær, ágæt umræða, yfirveguð og góð með andsvörum og samtölum. Og svo kemur hér boðberi friðar og uppbyggilegrar umræðu, hv. þm. Vigdís Hauksdóttir, og brigslar okkur hér sem erum að taka þátt í umræðunni — um hvað? Um málþóf.

Virðulegi forseti. Er það svo að hv. þingmanni finnist óþægilegt að rætt sé um þessi mál? (VigH: Nei.) Má ekki ræða um þessi mál? (VigH: Jú.) Hvar vill hv. þingmaður setja mörkin á því hversu lengi má tala um mál sem skipta miklu máli? Hversu lengi má tala um mál? Er hv. þingmaður með einhvern kvóta á eðlilega umræðu í Alþingi Íslendinga? Í hvaða stöðu erum við eiginlega komin hér (Forseti hringir.) þegar ítrekaðir þöggunartilburðir eru hér í dag (Forseti hringir.) hjá formanni fjárlaganefndar (Forseti hringir.) og í morgun hjá varaformanni fjárlaganefndar, (Forseti hringir.) hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni, sem hafði hér yfir sömu orð? Hann talaði líka um málþóf.