143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[15:22]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Það er ekki að spyrja að hæfileikum hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur til að liðka fyrir þingstörfum. Það verður að telja með nokkrum ólíkindum að þingmaðurinn sé farinn að gera athugasemdir við þingmenn sem þó hafa enn talað í mun skemmri tíma á þessum fundi en ég held að hv. þingmaður hafi að jafnaði talað á sinni tíð og kalli það málþóf. Ég held að hv. þingmaður verði að bíða eftir því að menn séu búnir að tala jafn lengi og Vigdís Hauksdóttir er vön að tala á þingum áður en hún fer að gagnrýna aðra fyrir að tala lengi í stólnum.

Hitt er auðvitað stórfurðulegt að manneskja sem einhverjum datt í hug að fela formennsku í fjárlaganefnd Alþingis skuli gagnrýna það að fjallað sé um tugmilljarða hagsmuni fyrir ríkissjóð Íslands í nokkuð löngu máli. Sá málflutningur er ekki með nokkrum hætti boðlegur hér í salnum. Það er einfaldlega (Forseti hringir.) alveg ljóst að þau mál sem hér eru á dagskrá í dag eru mál sem þarf að ræða vel og ítarlega.