143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[15:24]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það er gaman að kynnast þessari nýju hlið á hinni orðprúðu friðardúfu, hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur, borið saman við framgöngu hennar hér á síðasta kjörtímabili. Hún gegnir nú þeirri miklu virðingarstöðu að vera formaður fjárlaganefndar. Við höfum verið að tala hér um mál þar sem hundraða milljarða kostnaðaráhrif á ríki og sveitarfélög til samans eru undir. (VigH: Eins og Landsbankabréfið?) Það er ekki það sem hv. þingmaður hefur áhyggjur af, heldur hitt að þingmenn hafa hér í mjög takmörkuðum mæli nýtt sér rétt sinn til að tala. Við höfum sýnt einstaka þolinmæði, virðulegur forseti, gagnvart óskum okkar um að ráðherrar og formenn stjórnarflokkanna komi til orðaskipta við okkur — hvað þeir hafa ekki gert. Við höfum engu að síður leyft þessari umræðu að halda áfram. Formenn stjórnarandstöðuflokkanna voru hér að tala, einn búinn og annar næstur á mælendaskrá. Ráðherrarnir láta ekki sjá sig. Það er ekkert gert með óskir okkar frá því í gær og í dag um að þeir komi hingað. Ég held að hv. þm. Vigdís Hauksdóttir (Forseti hringir.) ætti að spara sér stóru orðin (Forseti hringir.) og ræða frekar við sitt eigið fólk.