143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[15:36]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Nú hefur formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, sett svo snyrtilega ofan í við hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur að ég held að ég geti ekki bætt þar um betur. Ég þakka hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur fyrir drengileg ummæli um að hér fari ekki fram málþóf heldur sú eðlilega umræða sem þingflokksformenn reiknuðu með um málið og sömdu um að yrði gefið það rými sem þyrfti. Og hver er þessi umræða búin að vera? Það eru nokkrir þingmenn búnir að flytja sína fyrstu ræðu, 20 mínútna ræðu. Það hefur verið mikið um andsvör og þingmenn Framsóknarflokksins voru sérstaklega virkir í andsvörum í gær. Það var gott.

Hvað megum við svo tala, frú forseti? Jú, tíu mínútur í annarri umferð. Það hefur ekki ein einasta fimm mínútna ræða verið haldin enn í þessari umræðu, hvað þá að menn hafi farið í andsvör við sjálfa sig eins og alsiða var á síðasta kjörtímabili.

Varðandi hv. formann fjárlaganefndar og rugl um að ég hafi sett 300 milljarða ólögvarða Icesave-kröfu inn í nýja Landsbankann er eiginlega ekki hægt að snúa hlutunum betur á haus. Þetta sýnir fullkomna vanþekkingu og fáfræði hv. þingmanns. Það voru neyðarlögin sem gerðu innstæður í (Forseti hringir.) föllnum bönkum að forgangskröfum og þar með varð Icesave-krafan (Forseti hringir.) að forgangskröfu í bú gamla Landsbankans. Ég kom hvergi nálægt því máli, (Forseti hringir.) bara svo sannleikanum sé til haga haldið, hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur til háðungar.