143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[15:39]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Vigdís Hauksdóttir bítur nú höfuðið af skömminni. Eftir að hv. þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins hefur á vandaðan hátt gert grein fyrir þeirri umræðu og þeim skilningi sem var á milli þingflokksformanna um umræðu um þetta mál kemur hv. þingmaður aftur í ræðustól og ítrekar ásakanir sínar um málþóf af hálfu stjórnarandstöðunnar.

Ég verð eiginlega að láta segja mér það tvisvar ef hv. þm. Willum Þór Þórsson, framsögumaður um þetta mál, sem er vandur að virðingu sinni, hefur tjáð sig um það á samfélagssíðu sinni að hér fari fram málþóf þegar hér hefur verið málefnaleg umræða um málið.

Það er bersýnilegt að þessari umræðu verður ekki haldið áfram að óbreyttu. Virðulegur forseti verður að gera hlé á þessum fundi. Krafa hefur komið fram og beiðni um fund með þingflokksformönnum og væntanlega forseta Alþingis. Ég ætla að inna hæstv. forseta eftir því hvort hún hafi gert ráðstafanir til að þessum fundi verði frestað, það verði gert hlé (Forseti hringir.) á honum og boðað til téðs fundar með þingflokksformönnum og forseta.