143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[15:41]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég tek undir óskir hv. þingflokksformanns VG, Svandísar Svavarsdóttur, um að kallaður verði saman fundur þingflokksformanna. Ekki þar fyrir, hér hefur hv. þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, gert ágætlega grein fyrir þeim sameiginlega skilningi sem hefur verið á þinghaldinu, en það er eitthvað á reiki hver skilningur Framsóknarflokksins er á framhaldi þingstarfa.

Þó væri óskandi að hv. þingmenn Framsóknarflokksins gætu komið sér saman um það hvaða róg og dylgjur þeir ætla að hafa í garð okkar stjórnarandstöðuþingmanna. Hv. þm. Karl Garðarsson sakar okkur um að nenna ekki að vinna í sumar en hv. þm. Vigdís Hauksdóttir að við tölum of lengi. Þó að þau tvö hafi nú skipað sér í alveg sérstakan flokk í þinginu, hv. þm. Karl Garðarsson með hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur, væri ágætt að sá flokkur samræmdi að minnsta kosti málflutning sinn í garð okkar í stjórnarandstöðunni.

Hér fer ekki annað fram en bara sú efnislega umfjöllun sem þarf að fara fram (Forseti hringir.) um ráðstöfun sem varðar hátt í 100 þús. milljónir fyrir íslensk heimili.