143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[15:43]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Árni Páll Árnason) (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Á fundi formanna flokkanna í lok síðustu viku var um það samið að það mál sem hér er til umræðu og hitt skuldamálið ásamt með veiðigjöldum yrðu afgreidd. Skuldamálin áttu að fá þá umræðu sem þau þyrftu. Síðan yrðu afgreidd samkomulagsmál.

Það sem síðan hefur gerst er að forustumenn stjórnarflokkanna hafa farið undan í flæmingi, komið sífellt með ný og ný ágreiningsmál og spillt þar af leiðandi samningum. Svo heyrum við núna frá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur, andlegum leiðtoga ríkisstjórnarflokkanna í þingsölum, að markmiðið sé auðvitað að koma í veg fyrir að það takist að ljúka þingstörfum í þessari viku. Markmiðið sé að sigla þinginu inn í sumarþing. (Gripið fram í.)

Það er orðið alveg ljóst núna af hálfu forustu stjórnarflokkanna. Ég þakka hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur fyrir að útskýra hvernig í pottinn er búið. Þá blasir við að við þurfum að vera hér áfram. Okkur er í sjálfu sér ekkert að vanbúnaði að ræða þessi mál hér áfram. (Forseti hringir.) Það er full ástæða til að ræða þau vandlega og við munum þá bara gera það.