143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[16:04]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það lá fyrir, til að mynda í frumvarpinu, að þó að verulegur hluti fjölskyldna spari í séreign nú þegar gerir auðvitað stór hluti það ekki. Ég náði að fletta þessu upp á meðan hv. þingmaður var í andsvari. Þegar horft er á þær 80 þús. fjölskyldur sem eiga fasteign og þeim er skipt upp eru þar 20 þús. fjölskyldur til að mynda sem spara ekki í séreign nú þegar. Það er verulegur hluti.

Hvar eigum við að draga mörkin til að hægt sé að kalla eitthvað almenna aðgerð? Það er spurning sem erfitt er að svara af einhverju viti. En ef við horfum til þess að um er að ræða fjórðung til 30% sem ekki geta nýtt sér þetta þá spyr maður: Er ekki upplifun fólks sú þegar rætt er um almennar aðgerðir að þær eigi við um alla? Það er spurningin, sérstaklega þegar það lá í raun ekki fyrir fyrr en með útfærslu þessara frumvarpa og hugmynda hvernig þessu yrði nákvæmlega beitt. (Forseti hringir.) Ég held að upplifun fólks sé sú að almennar aðgerðir eigi við um nánast alla.