143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[16:09]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa ræðu. Þingmaðurinn rakti nokkur álitamál sem hún telur að þurfi betur að huga að við þetta frumvarp.

Ég hef fylgst með þessari umræðu úr þingflokksherberginu í dag og hlýddi á ágæta ræðu hv. þm. Ögmundar Jónassonar sem er flokksfélagi hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur. Hann talaði m.a. um að þetta væri mjög jákvætt mál og talaði mikið um lífeyrissjóðakerfið og séreignarsparnaðarkerfið og þekkir þetta gríðarlega vel frá fyrri tíð greinilega og lýsti því yfir í lokin að hann styddi þetta mál, það væri mjög jákvætt.

Mig langaði til að spyrja hv. þingmann að því hvort hún deili þeirri skoðun með flokksfélaga sínum að þetta sé jákvætt mál og hvort hún og hennar flokkur muni styðja það í atkvæðagreiðslu þegar þar að kemur, eða er þetta algerlega vonlaust mál? Það mátti heyra það á máli hv. þingmanns að hún styddi ekki málið (Forseti hringir.) en það sama heyrði maður ekki (Forseti hringir.) á félaga (Forseti hringir.) hennar, hv. þm. Ögmundi Jónassyni.