143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[16:14]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur prýðisgóða ræðu. Hv. þingmaður ræddi lífeyriskerfið og áhrif aðgerðanna á það í sinni fyrstu ræðu þannig að það er ómaklegt, eins og hv. þingmaður kom inn á, að vera með vangaveltur um málþóf í fyrstu ræðu hv. þingmanns. Ég tek undir að umræðan hefur verið mjög málefnaleg og góð og vil ég gjarnan taka þátt í henni áfram.

Hv. þingmaður kom inn á lífeyriskerfið en þegar hafa verið teknir út úr því kerfi frá hruni um 100 milljarðar. Nú bætast við 60–82 milljarðar með þessum aðgerðum. Ég skildi það á hv. þingmanni að hún væri jákvæð gagnvart sparnaði almennt, en hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér slíkt sparnaðarkerfi í samspili við framtíðarskipan húsnæðismála?