143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[16:17]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er auðvitað ljóst og sérstaklega hér á höfuðborgarsvæðinu, sem við hv. þingmaður erum bæði þingmenn fyrir, að þar erum við að horfa á það að eftir hrun var ekki nægilega byggt til að mæta aukinni þörf. Við getum sagt að húsnæðismarkaðurinn hafi orðið einsleitari á undanförnum árum þar sem við erum annars vegar með félagslegt leigukerfi og síðan hefðbundinn íbúðamarkað sem hefur byggst upp á forsendum markaðarins. Við erum ekki lengur með í sama mæli og áður — þegar var húsnæðisskortur hér áður höfðum samvinnufélög, verkamannabústaði, stéttarfélög tóku sig til og byggðu blokkir eins og til að mynda þá sem ég bý í núna.

Mér finnst mjög mikilvægt að við horfum til þessara fjölbreyttu forma, eins og raunar er ámálgað í þessari stefnumótun, en þetta er líka mikil grunnbreyting. Ef við ætlum að fara að horfa sérstaklega til aukins leigumarkaðar er það stór og mikil breyting á húsnæðisstefnunni sem hér hefur verið viðhöfð. Ég er mjög jákvæð gagnvart þeirri breytingu en mér finnst mjög mikilvægt ef við ætlum í auknum mæli að beina til að mynda unga fólkinu okkar í að verða leigjendur (Forseti hringir.) að þau kjör séu viðráðanleg, því að þau eru það svo sannarlega ekki í dag.