143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[16:19]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Eins og ég sagði áðan undir liðnum um fundarstjórn forseta finnst mér þessi umræða hafa verið afskaplega áhugaverð og um margt mjög fróðleg. Þegar samráð á sér stað, eins og við höfum kallað eftir við stjórnina, koma fleiri fletir á málið sem þarf einmitt til þegar svo stór mál eru undir. Við höfum rætt að mál eigi að fá þann tíma sem þau þurfa. Ég tel meira að segja að þau þurfi meiri tíma og þá ekkert endilega hér í ræðupúlti Alþingis heldur miklu frekar í umfjöllun nefnda þar sem við gætum skoðað þau enn frekar með þeim sem hafa enn meiri þekkingu en við þingmenn á tilteknum málum sem eru undir. Það er kannski það sem mér finnst vanta, sérstaklega varðandi það mál sem er næst á dagskrá. Mér finnst svo ótrúlega miklar og skiptar skoðanir um það að ég held að það þurfi lengri tíma til að þroskast.

Varðandi það mál sem við erum að fjalla um í dag, af því að það hefur verið töluvert rætt um tilurð þess og annað, þá er auðvitað ekki við okkur í stjórnarandstöðunni að sakast. Við erum búin að bíða eftir lykilmálum ríkisstjórnarinnar alveg þangað til núna á síðustu metrunum. Við hægðum ekki á þeim. Þau komu seint fram og ég held að allir séu í sjálfu sér ósáttir við það. Ég trúi því að flestir þingmenn hefðu viljað fá málin fram fyrr. Þannig liggur nú í því og þess vegna erum við að ræða allt of stór mál á síðustu dögunum. Það er nokkuð sem ég held að fáir þingmenn vilji standa frammi fyrir.

Hér hefur töluvert verið rætt um afleiðingarnar og hverjir njóti og hverjir njóti ekki. Ég held að fyrst og fremst, ef maður tekur bara áhrif á ríkið, megi byrja á Íbúðalánasjóði. Fyrst í stað voru áhrifin vanreiknuð í frumvarpinu og var fengið minnisblað til viðbótar frá Íbúðalánasjóði þar sem þetta var tekið betur saman. Það er áhyggjuefni hvernig á að fjármagna þetta. Það hefur í sjálfu sér ekki komið fram. Það kemur fram í nefndaráliti meiri hlutans að stjórnvöld geti brugðist við með aðgerðum til að draga úr kostnaði sjóðsins. Vissulega er verið að vinna að framtíðarskipan Íbúðalánasjóðs í velferðarráðuneytinu en það er líka fyrir séð að fram undan er stór pakki sem við þurfum að takast á við með einhverjum hætti.

Þegar talað er um að ríkissjóður eigi ekki mikla peninga veltir maður því auðvitað fyrir sér hvað þessi ríkisstjórn ætli að gera. Ætlar hún að skera niður einhvers staðar annars staðar í kerfinu? Hvar vill hún bera niður þegar svona miklir fjármunir eru undir?

Ég ræddi aðeins í síðustu ræðu minni um greiðslujöfnunarreikninginn. Það er ágætt í beinu framhaldi af umræðum um Íbúðalánasjóð að nefna hversu mikið er þar inni. Um 17 milljarðar eru á greiðslujöfnunarreikningi sem þýðir að stór hluti fyrstu útgreiðslu af 20 milljörðunum fer í að greiða það. Það kemur þá auðvitað fólki ekki til góða þannig að það finnur ekki fyrir því í veskinu sínu, a.m.k. ekki næsta eina og hálfa árið eins og staðfest var hér í gær.

Hér hefur líka verið talað um vinnu. Ég tel að við Íslendingar vinnum mjög mikið og þó að það sé gott að hvetja fólk til vinnu sé ég ekki alveg fyrir mér að við svona heilt yfir þurfum að vinna eitthvað meira.

Þessi spurning kom upp í gær: Hvað með svarta atvinnustarfsemi? Mundi þetta verða til þess að hvetja það fólk til sparnaðar? Það má vel vera og það væri óskandi að niðurstaðan yrði sú.

Svo er það hinn vinkillinn, eins og einhverjir hv. þingmenn hafa komið inn á, varðandi unga fólkið. Af því að ég kem úr skólakerfinu sem náms- og starfsráðgjafi hef ég áhyggjur af því. Þar eru einstaklingar sem vilja gjarnan eignast pening og fara út að vinna og sjá þetta í hillingum. Það er eflaust hægt að selja þeim það. Mér finnst ástæða til þess að velta því að minnsta kosti upp hvort þetta geti verið áhættuþáttur í aðgerðunum og hvort við getum einhvern veginn brugðist við því.

Varðandi það sem hér hefur verið rætt og kemur fram í nýju húsnæðistillögunum sem félagsmálaráðherra hefur lagt fram, að gera þetta varanlegt, þ.e. að séreignarlífeyrissparnaðurinn verði hluti af einhverjum húsnæðissparnaði, þá værum við bara að eyðileggja þetta kerfi. Það er engin ástæða til þess að gera það, held ég. Ég held að það sé sem slíkt ekki ónýtt. Ég vil miklu frekar horfa til þess að við leggjum til einhvers konar húsnæðissparnaðarreikninga að hætti sparimerkjahugmyndarinnar forðum þó að hún hafi heldur ekki verið ágallalaus. Það eru auðvitað engar svona aðferðir.

Svo er stóra spurningin, þ.e. þeir sem eru ekki að spara, eins og hér var sagt áðan, ég hélt að þeir væru bara 15 þúsund en hér var sagt 20 þúsund: Hvers vegna eru þeir ekki að spara? Hefði verið áhugavert að við ræddum það og létum kanna hver ástæðan væri og hvort við gætum þá átt von á því að þetta yrði hvati til aukins sparnaðar fyrir þann hóp?

Ég hef svo sem ekki sagt að þetta frumvarp sé alslæmt. Ég sagði í fyrri ræðu minni að skattfrjáls húsnæðissparnaður til handa þeim sérstaklega sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð væri ágætur að því undanskildu að það yrði ekki til þess að þeir drægjust aftur úr námi. Svo er auðvitað spurning hvort þetta sé góður sparnaður fyrir okkur sem erum komin yfir miðjan aldur eða þá sem eldri eru og eiga kannski minni möguleika en margur annar á því að spara.

Það sem mér fannst koma fram í umsögnum um þetta mál, þær voru auðvitað misjafnar eins og gefur að skilja, var sú hugsun að þetta yrði verðbólguhvetjandi og mundi þar af leiðandi draga úr áhrifum aðgerðanna til langs tíma. Svo finnst mér að það þurfi að kynna aðgerðirnar afskaplega vel fyrir þeim sem hyggjast nýta þær. Ég vona, af því að ég geri ráð fyrir að þetta frumvarp fari í gegn, að fólki verði gerð ítarleg grein fyrir því að ef það kýs að nýta sér þennan sparnað í húseignina sína, þ.e. til að greiða niður skuldir, þá verði hann aðfararhæfur, það sé þá búið að afsala sér þeim rétti, ef við getum kallað sem svo, sem felst í því að sparnaður er ekki aðfararhæfur sem séreignarlífeyrissparnaður. Ég vona að ríkisstjórnin kynni mjög vel þessa aðgerð því að ég held að það sé mjög mikilvægt.

Ég vil líka minna á að ríkisstjórnin hefur talað fyrir því að efla hér virkan leigumarkað en þessi aðgerð beinir fólki inn á séreignarleiðina þar sem hún kemur ekki til móts við leigjendur.