143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[16:29]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarkeyju Gunnarsdóttur góða ræðu. Fram kom fyrr í umræðunni að hún stóð hér að minnihlutaáliti hv. fjárlaganefndar, sem er fylgiskjal við nefndarálit hv. efnahags- og viðskiptanefndar, sem fylgir því máli sem við ræðum sem er skattleysi séreignarsparnaðar til niðurgreiðslu húsnæðisskulda og öflunar húsnæðis.

Ég trúi því að við hv. þingmaður deilum þeirri skoðun að það sé einn af meginkostum þessa frumvarps að það sé skynsamlegt efnahagslegt úrræði þar sem í því er hvati til sparnaðar fyrir mjög marga, það nær til mjög margra. Hv. þingmaður kom hins vegar inn á að það eru einhverjir sem ekki eru með séreignarsparnað í dag. Ég vil benda hv. þingmanni á ágætisgreiningu á bls. 16 í frumvarpinu sjálfu. Það eru kennitölur úr skattframtölum, en þar kemur fram að þeir sem eiga fasteign, skulda og spara ekki í séreign eru tæp 15 þúsund talsins og þeir sem eiga fasteign, skulda ekki og spara ekki séreign eru 6 þúsund. Svo sjáum við að þeir sem ekki eiga fasteign og spara ekki séreign eru tæp 38 þúsund talsins. Það gerir 58 þúsund sem við gætum hvatt til að hefja séreignarsparnað.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hún sjái ekki kosti þessa frumvarps hvað það varðar að hvetja þennan hóp til þess að byrja á að spara.