143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[16:34]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, ég er sömu skoðunar og hv. þingmaður. Um leið og ég þakka hv. þingmanni svörin vil ég segja að ég er sammála hv. þingmanni um greininguna. Ég trúi því að við eigum eftir að fá öflugri greiningar þegar við erum farin af stað og frumvörpin komin í gegnum þingið og farin að virka, þegar fólk verður búið velja þessa leið og þetta fer sína leið í gegnum kerfið muni hagstofufrumvarpið sem við stóðum að hér á síðasta þingi hjálpa okkur til þess að greina niðurstöðurnar betur. Það verður mjög fróðlegt og áhugavert að fá nákvæmari greiningu til framtíðar. Þá tökum við enn upplýstari og öflugri ákvarðanir.

Þetta er svona gróf greining sem hægt væri að gera að sinni, en ég trúi því að við getum séð frekari greiningar og náð betur utan um þá hópa sem við erum að aðstoða vegna þess að mikill kostur við þetta frumvarp, af því að hv. þingmaður nefndi unga fólkið, er að það er sá hluti, B-hluti, frumvarpsins er í raun og veru hugsaður til öflunar húsnæðis til framtíðar. Ég trúi því jafnframt að það sé kostur að fara af stað með þetta sem tímabundið úrræði, sjá hverju fram vindur og skoða það þá sem einhvers konar framtíðarúrræði ef vel tekst til.

Hv. þingmaður kom hér inn á áhyggjur sínar af þenslu, að þetta sé verðbólguhvetjandi aðgerð. Ef við horfum á skuldaleiðréttingar í heild sinni og það frumvarp sem við eigum eftir að ræða hér, skuldaleiðréttingarfrumvarpið, þá er þessi til þess fallin að draga úr þenslu og spilar þannig á móti (Forseti hringir.) hinni aðgerðinni.

Mig langar að spyrja hv. þingmann í seinna andsvari um skoðun hennar á verðtryggingu, hvort hún vilji afnema verðtrygginguna.