143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[16:39]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Hér er til efnislegrar umfjöllunar frumvarp til laga um séreignarsparnað og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar. Við höfum verið í umræðu í gær og svo í dag um þetta stóra mál og ég vil láta það koma fram af minni hálfu að ég tel að þessar umræður hafi verið málefnalegar og upplýsandi og það hafa farið fram andsvör milli fylgismanna málsins, þingmanna stjórnarflokkanna og þeirra sem hafa meiri efasemdir úr stjórnarandstöðu. Ég tel að það sé uppbyggilegt og eðlilegt og styrki lýðræðislega umræðu um málið.

Ég tel það mjög sorglegt að úr röðum annars stjórnarflokksins, úr röðum framsóknarmanna hafa komið upp ásakanir um málþóf af hálfu stjórnarandstöðunnar, frá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur, formanni fjárlaganefndar, sem ekki hefur látið svo lítið að vera mikið hér við þessa umræðu þótt undir séu mjög verulegir hagsmunir fyrir ríkissjóð og væntanlega mikil útgjöld og tekjutap. Það er sorglegt líka ef það reynist rétt að hv. framsögumaður málsins hafi verið að ýja að hinu sama, sem þó hefur tekið þátt í andsvörum í dag. Ég vil láta það koma fram að ég tel að þessi umræða sé nauðsynleg og eðlileg og það sé ekkert að því að menn séu með ólíkar skoðanir.

Það er líka þannig að í umsögnum sem hv. efnahags- og viðskiptanefnd hefur borist um þetta mál eru ólík sjónarmið uppi, þannig að það eru ólíkar skoðanir í samfélaginu. Stjórnarflokkarnir verða að gera sér grein fyrir því að þótt þeir séu með meiri hluta á þingi og hafi fengið meiri hluta í kosningum er það liðin tíð í lýðræðislegu samfélagi að þar með hafi þeir einkarétt á sannleikanum og því hvað sé rétt í öllum málum. Lýðræðið virkar ekki þannig í dag. Fjölmargir aðilar, bæði stjórnmálahreyfingar en líka frjáls félagasamtök, hagsmunaaðilar úti í samfélaginu hafa að sjálfsögðu sjónarmið uppi í málum og koma þeim á framfæri við þingnefndir og það eru sjónarmið sem á að hlusta eftir og þingnefndir eiga að gera það líka. Þess vegna finnst mér að meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar hafi skautað mjög létt yfir álitamál sem hefur verið velt upp í umsögnum um þetta mál og sumu er ekki svarað, að mínu viti, með viðhlítandi rökum. Þannig hafa til dæmis komið fram sjónarmið frá Alþýðusambandinu og Öryrkjabandalaginu og Landssambandi eldri borgara sem eru gagnrýnin á þá leið sem hér er farin.

Í umsögn Landssambands eldri borgara er meðal annars vísað í 1. umr. um þetta mál frá því 2. apríl sl. og vitnað í ummæli hæstv. fjármálaráðherra, sem er flutningsmaður þessa máls, í andsvari við ræðu hv. þm. Árna Páls Árnasonar en þar segir hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra orðrétt, með leyfi forseta:

„Þetta er almennur réttur sem allir eiga, bæði þeir sem hafa fram til þessa lagt fyrir í séreignarsparnað og líka þeir sem ekki hafa gert það fram til þessa en sjá núna hvata til að gera það.“

Landssamband eldri borgara segir í umsögn sinni, með leyfi forseta:

„Landssamband eldri borgara telur því að með þessum ummælum hljóti fjármálaráðherra að líta svo á að þeir sem fram til þessa hafa lagt fyrir í séreignarsparnað eigi líka þann rétt að nýta þessi úrræði og það á einmitt við ýmsa sem eru að hætta eða hættir á vinnumarkaði að þeir eiga í séreignarsjóði og gætu nýtt þetta til lækkunar húsnæðisskulda sinna.“

En þessu er ekki mætt.

Ég tel að þetta séu efnisleg sjónarmið sem Landssamband eldri borgara kemur hér fram með og að þeim sé í fyrsta lagi ekki mætt í breytingartillögu meiri hlutans og í raun ekki svarað í nefndarálitinu. Í nefndarálitinu er vísað til þess og það má skilja það þannig að málefni annarra hópa verði síðan skoðuð eitthvað í framhaldinu. En ég tel að það sé ekki fullnægjandi, ekki fyrir aðgerð sem er ætlað að vera almenn, þá verða menn auðvitað að sjá fyrir sér heildarmyndina og hvernig á að taka á málefnum annarra hópa vegna þess að gagnrýnin á þetta mál hefur m.a. lotið að því að þessi úrræði nýtist fyrst og fremst eða best í öllu falli, skulum við segja, þeim sem best standa í samfélaginu. Hér hafa verið reiddar fram tölur um það hversu margir gætu nýtt sér þessi úrræði og það eru vissulega margir sem geta það en í takmörkuðum mæli. Það er sagt að höfuðstóll húsnæðisskulda geti lækkað um allt að 4 milljónir, en hjá hverjum er það? Það er hjá þeim sem hafa hæstar tekjur sem geta náð þessu 4 millj. kr. marki og skulda mest. Og hverjir eru það sem skulda mest? Það eru þeir sem eiga stærstu eignirnar og skyldi það ekki vera svipaður hópur og sá sem hefur mestar tekjur í samfélaginu? Þetta eru gagnrýnisraddir sem hafa komið fram og ef stjórnarmeirihlutinn er ósammála þeim og telur það ekki eiga við rök að styðjast, það kann vel að vera að það sé sjónarmið stjórnarmeirihlutans, þá verður hann líka að reiða fram svör og gögn því til stuðnings.

Ég heyrði sagt í því samhengi að að jafnaði mætti gera ráð fyrir því að skuldalækkunin gæti numið um 1 millj. kr. að meðaltali. Að sjálfsögðu munar um það og það er líka rétt að halda því til haga að það er ekki þannig að við sem höfum verið gagnrýnin á þetta mál séum andsnúin því að farið sé í frekari leiðréttingar á skuldum heimila, en við teljum mjög mikilvægt að þeim fjármunum sem eiga að fara í það sé beint í þann farveg að þeir nýtist best þeim sem mest og best þurfa á því að halda.

Það er líka þannig að aðgerðir sem fyrrverandi ríkisstjórn greip til á síðasta kjörtímabili koma til frádráttar. Ég man eftir miklum ræðum, m.a. frá hv. núverandi formanni fjárlaganefndar, á síðasta kjörtímabili um að ekkert hefði verið gert fyrir heimilin í landinu, ekkert, núll, á síðasta kjörtímabili. Í skýrslu núverandi ríkisstjórnar um þetta mál sem liggur til grundvallar þeim frumvörpum sem liggja fyrir í þessu máli er sagt að aðgerðir á síðasta kjörtímabili komi til frádráttar. Eru þær engar? Er það rétt? Nei, það er ekki rétt. Þær eru mjög umtalsverðar. Það er sennilega á annað hundrað milljarðar kr., þannig að það stenst ekki sem haldið hefur verið fram. Eins og ég segi hefur gagnrýnin af okkar hálfu verið sú einkum og sér í lagi að við teljum að þetta nýtist þeim hópi best sem hefur hæstar tekjur í samfélaginu. Við teljum að ekki sé verið að mæta hópum eins og öryrkjum, námsmönnum og ellilífeyrisþegum, og það stutt umsögnum sem hafa borist nefndinni við umfjöllun um málið, og að það séu þeir hópar sem standa utan garðs, leigjendur til að mynda, í þessum aðgerðum. Því hefur ekki verið svarað hvernig á að mæta þessu.

Við höfum líka fjallað talsvert um flutning skattbyrði á milli kynslóða sem við teljum að sé mikilvægt að hafa í huga, a.m.k. að menn geri sér grein fyrir því hvaða afleiðingar þessar aðgerðir munu hafa á skatttekjur ríkis og sveitarfélaga til framtíðar og hvað það þýðir að draga úr tekjum ríkis og sveitarfélaga til að standa undir samfélagsþjónustunni til lengri tíma. Það mun þýða aukna skattbyrði eða lakari þjónustu, aukin þjónustugjöld eða aukna lántöku. Í þessu máli er þeim sjónarmiðum ekki svarað á nægilega afgerandi hátt.

Þetta voru sjónarmið sem ég vildi koma fram með í umræðunni. Þeim hafa verið gerð ágæt skil í umræðunni fram til þessa og í nefndaráliti minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar, en eru innlegg í þessa umræðu.