143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[16:58]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna en mig langar að spyrja hann um eitt. Í nefndaráliti minni hlutans á bls. 2, er talað um að séreignarsparnaðarkerfið hafi verið byggt á þeirri hugsun að sparnaðurinn mætti létta á almannatryggingakerfinu, enda muni stærstu kynslóðir Íslandssögunnar hefja töku eftirlauna á þriðja áratug aldarinnar.

Nú var séreignarsparnaðurinn vissulega hugsaður sem valkvæður sparnaður fyrir þá sem þess óskuðu en á þriðja áratug aldarinnar munu þeir sem taka út lífeyrissparnaðinn sinn flestir hafa greitt í lífeyrissjóð til lengri tíma og eiga þannig minni rétt úr almannatryggingakerfinu en margir sem eru á þeim aldri í dag. Mig langar því að spyrja hv. þingmann út í það atriði þegar talað er um að úttekt á þessum séreignarsparnaði nú, veikingin í þessu kerfi eins og það er orðað, muni auka, og það er fullyrt, byrðar almenna lífeyriskerfisins næstu árin og stuðla að auknum aðstöðumun milli launþega á almennum vinnumarkaði og þeirra sem njóta sérstakra kjara úr lífeyrissjóðum opinberra starfsmanna og hafa tök á að flýta starfslokum.

Ég bið hv. þingmann um að deila með mér skoðunum sínum á því hvernig hægt er að fullyrða að þessi aðgerð og úttekt úr séreignarlífeyrissparnaði muni auka byrðar almenna lífeyrissjóðakerfisins næstu áratugi og stuðla að þessum aðstöðumun á milli launþega. Væri ekki nær að Alþingi beitti sér fyrir því að fara í breytingar á lífeyrissjóðakerfinu (Forseti hringir.) og að hér yrði einn almennur lífeyrissjóður allra landsmanna með jöfnum rétti og þá sólarlagsákvæði á Lífeyrissjóð opinberra starfsmanna?