143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[17:26]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hún kom inn á ýmislegt sem vissulega skiptir máli í umræðunni. Mig langar til að byrja á því að ræða um hópinn á leigumarkaði. Ég get tekið undir með hv. þingmanni að það er mjög mikilvægt að vinna markvisst að úrlausnum fyrir þá hópa og þá horfi ég mjög til þeirrar vinnu sem farið hefur fram á vegum velferðarráðuneytisins.

Ég sé tvenns konar tengsl við þessa aðgerð eða þá lausn sem þetta frumvarp miðar að, annars vegar þá að með því að hluta heimila er gert kleift að lækka skuldir þá mun væntanlega fara minna í vaxtabætur á næstu árum. Í umræðunni um húsnæðisbætur þýðir það að við getum hugsanlega hækkað húsnæðisbætur til þeirra sem þá verða eftir í þeim hópum sem bera hæstan húsnæðiskostnað. Hins vegar eru möguleikar fyrir þá sem þess óska og það geta að spara fyrir húsnæði.

Af því að hv. þingmaður talaði um að nú væri verið að fara allt aðra leið við að greiða fyrir þessar skuldaleiðréttingar en hún hafði reiknað með, hvaða leið telur hv. þingmaður þá að við ættum að fara við að flytja peninga frá svokölluðum hrægammasjóðum?