143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[17:33]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birgittu Jónsdóttur góða ræðu. Hún kom inn á margt, m.a. það að ég hefði beðið afsökunar á vangaveltum um málþóf. Ég ætla nú ekki að gera það að reglu að koma hér í hverri einustu ræðu og éta ofan í mig þessi orð en mögulega var ég of fljótur á mér og bið afsökunar á því. Þetta er auðvitað ekki málþóf, þetta er mál af þeirri stærðargráðu. Umræðan í málinu hefur verið mjög góð, ég ítreka það, bæði í gær og í dag og málið er af þeirri stærðargráðu að það krefst þess að það sé rökrætt vel og ígrundað.

Hv. þingmaður kom inn á hóp leigjenda í sinni ræðu og það er vel vegna þess að það er sannarlega hópur sem við þurfum að huga að. Í nýútkominni skýrslu hæstv. húsnæðismálaráðherra eru vissulega tillögur um þann hóp. En í þessu frumvarpi sem við ræðum hér eru jafnframt tillögur. Í b-lið 1. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir því að leigjendur geti og hafi möguleika á því að spara, nýta séreignarsparnað til öflunar húsnæðis. Það kom fram hjá fulltrúum Samtaka leigjenda á Íslandi sem komu fyrir nefndina og í umsögn að þeim fyndist fjárhæðin ekki næg, þeim fyndist fjárhæðin duga skammt en það er þó eitthvað upp í ef leigjendur kjósa þá leið að nýta séreignina einhvern tíma, þannig að vissulega er þetta úrræði til handa þeim.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvernig hún sjái fyrir sér framtíðarskipan á þessum markaði varðandi fjölbreytt úrræði.