143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[17:35]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir að hrósa ræðu minni, ég mundi vilja vera miklu betur inni í þessu máli. Ég á ekki sæti í nefndinni þannig að sú samræða sem við eigum í þingsal skiptir mig miklu máli, bara til að halda því til haga. Ég hef oft skipt um skoðun við það að hlusta á þingmenn mæla fyrir málum eða fengið skarpari sýn á það hvernig ég á að haga atkvæði mínu o.s.frv. Ég hvet því þingmenn til að fylgjast með ef við fáum tíma, en ókosturinn við það þegar við gerum svona samninga um að hraða málum í gegn er að þá fær maður ekki þessar nauðsynlegu atkvæðaskýringar, sem mér finnst eiginlega það skemmtilegasta á Alþingi, til þess að setja sig betur inn í málin.

Varðandi framtíðarsýn um það hvernig við ætlum að haga húsnæðiskerfinu er hún náttúrlega mjög í samræmi við það sem hefur oft verið rætt. Það er fínt að hafa úrræði eins og Búseta, eins og Búseti hagar sínum málum, það er fínt að hafa langtímaleiguúrræði. Ég leigði einhvern tíma í Hafnarfirði í blokk, mjög stutt, þar sem voru bara leiguíbúðir. Þvílíkur hryllingur Mér fannst ekki gott að vera þar. En sumum finnst kannski gott að vera í húsnæði þar sem allar íbúðirnar eru nákvæmlega eins með eins gardínum o.s.frv.

Það vantar fleiri stúdíóíbúðir fyrir fólk til að geta keypt og það vantar meiri fjölbreytni á markaðinn. Ég held að í þeim tillögum sem koma væntanlega hér inn á þing í haust séu margar hugmyndir um það hvernig við getum víkkað út þennan markað. Jafnframt held ég að það sé líka dálítið mikilvægt að huga að því fólki sem vill t.d. leigja út íbúð. Það er gríðarlega dýrt að borga af húsnæðisláni og (Forseti hringir.) jafnframt alls konar gjöld og þá verður að leigja húsnæðið mjög dýrt. Við þurfum að finna einhverjar lausnir í þessum málaflokki.