143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[17:37]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni góð svör. Ég vil benda hv. þingmanni á, af því að hún kom inn á búseturéttarhafa að í nefndaráliti, og ég gerði grein fyrir því í framsögu að í frumvarpinu á bls. 5 kemur fram, með leyfi forseta, að handhafarnir geti nýtt sér úrræði b-liðar 1. gr. frumvarpsins og greitt búseturéttargjaldið með viðbótariðgjaldi, eins og fram kemur í athugasemdum. Skilningur meiri hlutans sé því sá að heimilt verði að nýta viðbótariðgjaldið til þess að greiða inn á höfuðstól láns sem hefur verið tekið vegna öflunar búseturéttaríbúðar.

Hv. þingmaður kom inn á athyglisverða hugmynd í ræðu sinni varðandi ferðamenn, þeir eru farnir að streyma til okkar og við leigjum út. Hvernig líst henni á hugmyndir um að gefa skattfrjálst leigu og gefa fólki sem á stórt húsnæði, t.d. eldri borgurum, færi á því (Forseti hringir.) að nýta hluta af húsi sínu skattfrjálst til að leigja Íslendingum en ekki ferðamönnum?