143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[17:42]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka mjög góðar spurningar hjá hv. þingmanni. Ég er alveg sammála því að ég mundi vilja finna fyrir miklu sterkari samfélagsanda þar sem við upplifum sterkar að við búum í samfélagi.

Auðvitað er það þannig að þegar hér var bullandi góðæri þá kvartaði enginn yfir því að eiga allt í einu mjög verðmiklar eignir og við sem vorum á leigumarkaði þá nutum alls ekki góðs af góðærinu því að þá hækkaði leiguverðið líka af því að fasteignaverð hækkaði. Ég benti fólki oft á að það væri ekki að verða ríkt, þetta væri blekking, þetta væri ekki raunverulegt.

Það var einhver samfélagsleg stemning fyrir því að allir væru bara rosa ríkir og það væri rosa gaman og að hægt væri að taka há lán út á höfuðstólinn sinn eða taka veð í húsnæðinu sínu, sem mér finnst nokkuð sem við ættum að skoða hvort sé réttlætanlegt. Maður hefur þak yfir höfuðið, á maður þá að geta tekið endalaust einhver veð til að geta farið í sólarlandaferð eða keypt sér dýran bíl eða eitthvað slíkt? Mér finnst að við þurfum aðeins að ræða um það sem samfélag og ég vonast til þess að þegar við förum dýpra inn í heildstætt kerfi að við getum tekið það inn í samfélagið, að það verði ekki bara einhver umræða hér. Við þurfum að eiga þessa umræðu í samfélaginu alveg eins og við þurfum að eiga umræðu til dæmis um nýja stjórnarskrá í samfélaginu, því að það er samfélagssáttmáli. Því þurfum við Íslendingar að æfa okkur í, að tala saman um hvernig samfélagi við viljum búa í.