143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[17:59]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Vissulega eru íbúar sveitarfélaganna þeir sem njóta aðgerðanna en það er líka þannig að sumir af íbúum, í þessu tilfelli Reykjavíkurborgar, njóta aðgerðanna en það eru allir, og kannski þeir sem helst þurfa á þjónustu að halda og margir hverjir eiga ekki húsnæði, sem munu gjalda fyrir með lakari þjónustu ef þetta verður niðurskurðarmegin.

Ég talaði um 40 ára tímaperspektíf en Reykjavíkurborg talar um yfirstandandi ár og næstu þrjú ár á eftir, 2,1 milljarð. Eins og ég sagði í ræðu minni skiptir máli að finna leiðir til að koma til móts við fólk sem á í fjárhagsvanda vegna ofurskuldsetningar eða skuldsetningar sem fólk ræður ekki við, það þarf ekkert að vera ofurskuldsetning, langt því frá.

Hins vegar er óábyrgt að fara út í aðgerð sem þessa þar sem þeir njóta mest sem mest eiga á kostnað þeirra sem minnst hafa. Það er spurningin um tekjujöfnunaráhrif þessara frumvarpa sem truflar þau okkar sem trúum á samfélög sem leggja upp úr jöfnuði, góðri almannaþjónustu og réttlátri skiptingu. Við teljum þessi frumvörp að einhverju leyti ógna þeim markmiðum, þó að við fögnum því vissulega að þeir sem eiga í vanda vegna skuldsetningar sjái leið út úr honum með þessu.