143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[18:01]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni greinargóð svör, við deilum alveg sömu sýn á það að skapa jöfnuð og réttlæti í þjóðfélaginu.

Þessar aðgerðir beinast að þeim hópi sem, samkvæmt a-lið frumvarpsins, mun geta nýtt sér skattleysi séreignarsparnaðar. Við erum að hjálpa fólki til að hjálpa sér sjálfu, með skattleysinu, þar sem hvatinn er til að spara og greiða niður húsnæðisskuldir. Og við erum að skapa þeim sem, samkvæmt í b-lið, ekki eiga húsnæði, og skulda þar með ekki í húsnæði, möguleika til að afla sér eigin fjár til framtíðaröflunar húsnæðis. Þetta getur verið, eins og kemur fram í greiningum í frumvarpinu, stór hópur fólks og þarna er verið að gefa fólki eða hvetja fólk til að spara.

Það kom fram í umræðunni hér í dag, hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni, að hjá opinberum starfsmönnum fer einn heill dagur af fimm vinnudögum í að afla lífeyris, þannig að gríðarlega miklir fjármunir fara inn í þetta kerfi.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann sjái ekki kostina við sparnaðarhvatann í þeim gríðarlegu fjármunum sem fara í lífeyriskerfið miðað við aðstæður í dag. Eins og ég skildi hv. þingmann þá telur hann að enn betur þurfi að gera til að ná niður skuldum skuldsettra heimila.