143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[18:03]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Sparnaðarhvati er mikilvægur og séreignarsparnaðarkerfið var einmitt sett á laggirnar til að hvetja til aukins sparnaðar. Það er jákvætt að þeir sem eru í vanda vegna skulda á húsnæði geti greitt inn á skuldir sínar. En það verður líka umtalsverður fjöldi fólks sem mun geta nýtt sér þennan skattafslátt sem hefur enga sérstaka þörf fyrir það og hefði sparað þessa fjármuni engu að síður þannig að þar er sparnaðurinn ekki að aukast.

Varðandi áhrifin á Íbúðalánasjóð er talið að tjón sjóðsins af uppgreiðslum mundi nema 7,5 til 24 milljörðum samtals á fjögurra ára tímabili, það eru miklir fjármunir.

Ég hef áhyggjur af leigjendum, eins og ég fór yfir, sem eru sannarlega hópur sem hefur orðið fyrir miklum búsifjum. Leiga hefur hækkað langt umfram launavísitölu en engin fyrirheit eru gefin um fyrirgreiðslu fyrir þennan hóp.

Hefði verið sagt að svo yrði þetta gert og hitt þá hefði það gefið heildstæðari mynd af því hvernig eigi að fjármagna aðgerðirnar, hvernig eigi að tryggja að þeir sem lakasta stöðu hafi fái líka aðstoð úr opinberum sjóðum. Þá hefði verið auðveldara (Forseti hringir.) að skoða þessar aðgerðir og meta. Mér finnst við vera í fullkominni (Forseti hringir.) þoku og mér finnst þetta óábyrgt.