143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[18:06]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mig langar til að velta hér aðeins upp húsnæðissparnaði almennt vegna þess að í tengslum við þetta frumvarp er talað um að mikilvægt sé að treysta í sessi og efla möguleika fólks til að spara og leggja fyrir í þágu húsnæðisöflunar, bæði þá sem eru með lán í dag og geta notað þau úrræði sem þetta frumvarp felur í sér til að greiða niður hluta af höfuðstól áhvílandi lána og hins vegar einnig að gefa kost á því að menn leggi fyrir og hefji þá í raun og veru að safna séreignarsparnaði til að leggja fyrir til öflunar húsnæðis síðar meir.

Um þetta hefur talsvert verið rætt í umræðunni. Mig langar að heyra aðeins betur viðhorf hv. þingmanns til hugmyndafræðinnar á bak við það að, eigum við að segja, fjölga möguleikum eða efla þá til að leggja fyrir, annars vegar til öflunar húsnæðis og hins vegar til að greiða niður höfuðstól áhvílandi lána, og hvernig húsnæðissparnaðarreikninga og húsnæðissparnaðarkerfi hún sæi fyrir sér.

Gagnrýnin á þetta hefur ekki síst gengið út á það að óeðlilegt sé að blanda saman almennt húsnæðissparnaðarreikningum og viðbótarlífeyrissparnaði.

Mig langar að heyra aðeins frá hv. þingmanni hvernig hún sæi fyrir sér almennt húsnæðissparnaðarkerfi fyrir ungt fólk.