143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[18:08]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit að það er almennt stuðningur við húsnæðissparnaðarkerfi. Ég ætla að játa að persónulega er þetta ekki sérstakt áhugamál mitt, húsnæðissparnaðarkerfið, en ég held að mikilvægt sé að líta til þess að þegar gerðar eru til dæmis kannanir á hvort fólk vilji vera á leigumarkaði þá er það vaxandi hópur sem hefur áhuga á því, ef það vill sem sagt ekki eignast sérbýli eða býr í þannig sveitarfélögum að erfitt aðgengi er að leiguhúsnæði og eðli málsins samkvæmt búi fólk í sérbýli. Það er vaxandi hópur sem vill búa í leiguhúsnæði.

Ég held líka að flestir foreldrar vilji líka hafa tækifæri til að leggja í sjóð fyrir börnin sín, hvort heldur sem þau nota hann til húsnæðiskaupa síðar meir eða til að fara utan og sækja sér menntun eða til að fara til útlanda og kynnast heiminum eða hvað svo sem börnin vilja gera við það. Svo er fólk sem er að hefja fullorðinsárin, vilji það spara fyrir húsnæði sé því gert það kleift.

Það sem minni hlutinn gerir athugasemdir við, og ég tek algjörlega undir, er að með því að tengja þetta séreignarsparnaðarkerfinu er verið að tengja þetta atvinnuþátttöku. Það er náttúrlega þannig að meiri hluti ungs fólks í dag fer í nám og er þar af leiðandi ekki á vinnumarkaði nema lítinn hluta ársins.

Ég er ekki hér með tilbúið húsnæðissparnaðarkerfi en ég held að huga þurfi að því að möguleikinn, ef komið verður á slíku kerfi, sé ekki einskorðaður við það að hann gagnist þeim sem (Forseti hringir.) eru á vinnumarkaði.