143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[18:22]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hann talar um að það sé ágætt að efna til sparnaðar og allt það. Nú er verið að tala hér um skattafslátt og þetta tilboð hljómar mjög vel. Það hljómar vel að nota eigin sparnað og fá skattafslátt til að greiða niður skuldir sínar, en auðvitað kostar þetta marga milljarða úr ríkissjóði og eins úr sveitarsjóðum. Við vitum hvað bíður okkar — óleyst vandamál sem við þurfum að taka á eins og til dæmis B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og A-deildin líka. Þar eru háar upphæðir sem við þurfum að mæta á næstu árum og svo þegar við bætist aukinn kostnaður vegna þessara aðgerða.

Mig langar að biðja hv. þingmann um að fara aðeins yfir þau efnahagslegu áhrif sem þessi frumvörp valda og taka þá með í reikninginn þau óleystu vandamál sem við eigum eftir að leysa. Getur hv. þingmaður farið yfir það með okkur hér í þingsal hvernig fjallað var um þetta í hv. efnahags- og viðskiptanefnd og hvernig menn sjá fyrir sér að tekið verði á þessum vandamálum? Það er ekki nægilegt að horfa bara á afleiðingar þessa frumvarps. Við hljótum að verða að leggja það við þau óleystu vandamál sem við þurfum að glíma við á næstu árum.