143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[18:28]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er hægt að slá nokkuð máli á beinu áhrifin og velta þeim tölum fyrir sér. Það er til dæmis bæði í nefndaráliti 3. og 4. minni hluta komið inn á það að ef við tækjum þessa 80 milljarða í hinu frumvarpinu og bara greiddum niður skuldir ríkisins með því mundi sparast vaxtakostnaður upp á 3–4 milljarða á ári. Það væri myndarlegt. Ef við tækjum sirka 130 milljarða sem væru þá annars vegar höfuðstólsniðurfærslan og hins vegar fórnarkostnaður ríkisins í séreignarsparnaðinum að lágmarki þá væri vaxtasparnaðurinn kominn í 6–7 milljarða á ári. Það telur fljótt, á hverju einasta ári, ef við hefðum 6–7 milljörðum meira til að ráðstafa í ýmis góð verkefni.

Vandinn er að horfast í augu við óbeinu afleiðingarnar, aukna verðbólgu, hærri vexti, veikara gengi. Ég tel að barnabætur og hækkun þeirra sé mjög góð leið enda komumst við að þeirri niðurstöðu fyrir tveimur árum að það þyrfti að gera betur við þann hóp, og allar greiningar sýna vanda barnafjölskyldna, (Forseti hringir.) sérstaklega tekjulágra foreldra, og síðan nefni ég húsaleigubætur. Það er alveg augljóst mál að ef við ætlum að reyna að skila (Forseti hringir.) einhverju til þeirra hópa sem verða út undan í þessum aðgerðum þá blasa við (Forseti hringir.) húsaleigubæturnar handa leigjendum.