143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[18:41]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ein þeirra sem hafa ákveðna „sympatíu“ með þessari aðgerð, þ.e. að þetta verði heimilað. En mér finnst ofsalega óþægilegt að menn klári svona mál án þess að vita nákvæmlega hvaða áhrif þetta muni hafa á ríkissjóð. Það er það sem mér sýnist vera að gerast hér ef við horfum bara til þess einstaka þáttar sem heitir Íbúðalánsjóður og þá erum við ekki að tala um tapaðar skatttekjur eða annað slíkt.

Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst verulega óþægilegt að í báðum frumvörpunum leggja menn bara blessun sína yfir það og segja í greinargerð eitthvað á þessa leið: Já, það er óljóst hvaða áhrif þetta mun hafa á Íbúðalánasjóð, eins og það sé bara allt í lagi. Mér finnst það óþægilegt. Og það mundi gera okkur auðveldara fyrir að styðja málið ef menn hefðu unnið þann þátt miklu betur. Það á ekki að vera og getur ekki verið eðlilegt að menn geti sett í greinargerð að (Forseti hringir.) það sé algjörlega óljóst hvaða áhrif þetta muni hafa á ríkissjóð og Íbúðalánasjóð, eins og menn leyfa sér að gera í þessu tilfelli.