143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[18:44]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það hefur verið mjög áhugavert, fyrir okkur sem ekki sitjum í nefndinni, að fylgjast með þessari umræðu og fræðast um það sem þar fór fram.

Ég er ein þeirra, eins og ég sagði í andsvari áðan, sem er frekar jákvæð gagnvart því að finna leiðir til að lækka skuldir heimila í landinu og þá ekki síst þeirra sem skuldalækkanir fráfarandi ríkisstjórnar, sem ég átti sæti í, náðu ekki til og líka þeirra sem keyptu á versta tíma. Það eru fleiri hópar sem við höfum talið að þurfi að mæta. Þetta gæti verið ein leið en hún hefur þó þann stóra annmarka að vera hluti af stærri pakka sem skilar ekki fjármunum á rétta staði. Þegar ég segi rétta staði, þá er ég að meina þá sem eru í hvað mestum vanda. Sá hópur er búinn að fá töluverða niðurfærslu á skuldum sínum í gegnum aðgerðir fyrri ríkisstjórnar og það verður dregið frá þessum aðgerðum. Þegar kemur að málinu sem við munum ræða hér á eftir, þegar kemur að því samhengi, mun þetta mál helst gagnast þeim sem hafa hæstar tekjurnar. Ég er þeirrar skoðunar að margt sé vanhugsað í þessu hvað það varðar. Ég er býsna hlynnt hugmyndinni en ég tel útfærsluna ekki rétta.

Almennt hefur umræðan um þessi skuldalækkunarmál verið vægast sagt mjög sérstök. Í fyrsta lagi áttu að koma 300 milljarðar, eða jafnvel meira, frá ljótu hrægömmunum í útlöndum, sem áttu að skila sér til lækkunar á skuldum heimilanna. En niðurstaðan sem fæðist í þessum tveimur frumvörpum, og þessu meðal annars, þar sem fólki er boðið upp á að nota sinn eigin sparnað til að lækka skuldirnar, er ekki það sem lofað var í síðustu kosningum. Mönnum var lofað að það kæmi fé frá ljótu hrægömmunum erlendis til að lækka skuldir

Við sitjum ekki bara uppi með frumvarp þar sem fólki er boðið upp á að greiða niður skuldir sínar með eigin sparnaði heldur horfum við líka upp á mjög óljós áhrif á ríkissjóð. Við sjáum í þessum gögnum að verið er að velta kostnaði við þennan hluta aðgerðanna að mjög miklu leyti, ég held að flestu leyti, yfir á skattgreiðendur í landinu. Það mun geta komið niður á þjónustu við íbúa.

Það er verið að ýta vandamálinu á undan sér yfir á komandi kynslóðir án þess að komandi kynslóðir fái nokkuð út úr þessu. Ef við horfum til dæmis á námsmennina sem hafa ekki færi á að taka þátt í þessu, vegna þess að þeir eru ekki að greiða inn í séreignasparnað, þá munu þeir fá að bera kostnaðinn af hinum óljósu áhrifum á Íbúðalánasjóð, þeir munu fá að bera kostnaðinn af töpuðum skatttekjum sem ekki munu skila sér inn til ríkisins til lengri tíma.

Menn verða bara að segja þetta nákvæmlega eins og það er. Þó að hugmyndin hér að baki sé ágæt, þ.e. að menn geti sett sparnaðinn sinn í húsnæði, þá er útfærslan að mínu mati ekki rétt og sérstaklega í stóra skuldaniðurfærslusamhenginu sem menn lögðu upp með. Eins og fram kemur í minnihlutaáliti nefndarinnar fá öryrkjar, námsmenn og ellilífeyrisþegar heldur ekkert út úr þessu. Við skiljum eftir stóra hópa af tekjulægsta fólkinu, við skiljum eftir yngsta fullorðna fólkið, ef svo má að orði komast, þ.e. yngsta fólkið sem er að fara að koma sér þaki yfir höfuðið eftir nám. Þetta gagnast því fólki ekki neitt en það situr samt uppi með afleiðingarnar. Það er það sem er vont við þetta mál.

Það sem mér finnst líka vont við þetta mál er það sem ég var að ræða við hv. þm. Steingrím J. Sigfússon hér áðan, þ.e. öll þessi óljósu áhrif á ríkissjóð. Menn segja beinlínis að það sé ekki vitað hver áhrifin verða á Íbúðalánasjóð, menn vita það ekki, segja bara að það sé óljóst, það er sagt. Menn segja það líka í greinargerð með frumvarpinu sem við munum ræða hér á eftir, það er líka sagt þar. Og það sem mér finnst vont við þetta er að menn skuli leyfa sér, og að þeir skuli geta það, að leggja fram frumvörp af þessari stærðargráðu og segja í greinargerð, eins og ekkert sé eðlilegra, að áhrifin á Íbúðalánasjóð séu algerlega óljós og muni bara koma í ljós. Ég veit ekki hvar þetta er leyft almennt. Ég veit ekki í hvaða ríkjum slíkt getur farið í gegnum þjóðþing átölulaust, mér er fyrirmunað að skilja það.

Ég hefði miklu frekar viljað sitja hér með upplýsingarnar fyrir framan mig og segja af eða á um afstöðu mína, hvort ég teldi þetta forsvaranlegt. Við ræðum hér mál þar sem mikið er undir, annars vegar hagur heimilanna — þetta mun sannarlega koma til móts við mörg skuldug millitekjuheimili, þetta mun gagnast þeim ágætlega, ég ætla ekki að gera lítið úr því — og hins vegar erum við með þá sem hafa lægstu tekjurnar, þá sem þurfa á þjónustu hins opinbera að halda, og þar ríkir fullkomin óvissa um tekjutapið sem þetta mun leiða til.

Við sem hér erum eigum undir öllum kringumstæðum að hugsa um þá sem þurfa á ríkinu að halda, því að ákvarðanir sem teknar eru hér inni hafa allt um líf þess fólks og lífsafkomu að segja. Þetta eru allir lífeyrisþegarnir, þetta eru námsmennirnir og þetta eru öryrkjarnir. En við ákveðum hér í svona stóru máli að sleppa þeim og segja bara: Það ríkir mjög mikil óvissa um tekjur ríkisins inn í framtíðina. Tekjur ríkisins hafa allt um það að segja hvað við höfum milli handanna til að styðja við umrædda hópa. Það er í þessu samhengi sem mér finnst mjög erfitt að fjalla um þetta mál.

Virðulegi forseti. Mér finnst það vont ef nefndin hefur ekki getað fengið niðurstöðu í þetta. Það dugar mér ekki að segja, eins og sagt er í nefndaráliti meiri hlutans, að um þessar mundir sé unnið á heildstæðan hátt að málefnum Íbúðalánasjóðs í velferðarráðuneytinu. Það bjargar engu. Þessi lán eru enn þá þarna úti, þessi lán eru þarna, þau fara ekki neitt. Það er sama hvað menn gera varðandi Íbúðalánasjóð, það breytir þessu ekkert. Nema eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon fór yfir hér áðan þá getur það skipt töluvert miklu máli hvað menn ákveða að gera við Íbúðalánasjóð, hvort þeir ákveða að hafa hann áfram í rekstri eða ekki, og það sé hugsanlega vegna þessara mála sem betra sé að hafa hann áfram í rekstri. Mér finnst að nefndin hefði átt að útkljá þetta áður en málið kemur hingað inn þannig að við hefðum betri upplýsingar, við sem hér erum. Þetta gerir að verkum að mér finnst málið býsna erfitt og mér finnst erfitt að heyra það líka frá nefndarmönnum, þegar þeir fara yfir það, að það vanti algerlega heildarmat á þessum tillögum, þ.e. kostnaðarhliðinni á þeim, að það sé bara ekki til og óvissuþættirnir séu svo margir og stórir. Það er svo mikill munur á efri mörkum og neðri mörkum að við erum að mörgu leyti að ana hér út í óvissuna.

Ef við horfum á þetta mál og ef við horfum líka á þær skuldaniðurfellingar sem við ræðum vonandi hér á eftir þá er þetta allt á eina bókina lært, þ.e. ríkisstjórnin skilur alltaf tekjulægstu hópana eftir. Þeir voru skildir eftir innan lífeyrisþegahópsins þegar farið var út í hækkanir hjá lífeyrisþegum síðasta sumar. Þá var bara sagt við okkur, þegar ég var í velferðarnefnd: Já, þeir tekjulægstu innan lífeyrisþegahópsins fá ekki neitt vegna þess að fráfarandi ríkisstjórn sá um það. Þeir voru skildir eftir þá.

Síðan erum við með fleiri mál þar sem þeir eru skildir eftir. Það er til dæmis verið að hækka komugjöld í heilbrigðiskerfinu, það kemur hlutfallslega verst niður á þeim sem lægstar hafa tekjurnar og þar með talið lífeyrisþegum o.s.frv. Þetta er tilhneigingin í öllum málum, hverju á fætur öðru. Og svo erum við komin hér með einhverja stærstu millifærslu sem við höfum séð lengi og þessum hópum er bara sleppt eina ferðina enn. Núna eru rökin þessi: Við ætluðum hvort eð er aldrei að láta þá fá neitt vegna þess að við vorum alltaf að horfa á húseigendur. En leigjendur urðu fyrir alveg sama forsendubresti. Ef eitthvað er þá lagðist hann þyngra á leigjendur en á íbúðaeigendur. Því finnst mér stórundarlegt að menn skuli fara í svona stórar aðgerðir, sem ljóst er að munu kosta ríkið töluvert mikla fjármuni — eins og fram hefur komið hér er það vel á annað hundrað milljarða — að þá skuli menn taka meðvitaða ákvörðun um að skilja þessa hópa eftir, þá sem eru á leigumarkaði og þá sem hafa lægstu tekjurnar í samfélaginu.

Virðulegi forseti Ég get ekki lýst því með nógu sterkum orðum hversu innilega ósammála ég er þessari nálgun. En þetta er kannski munurinn í hnotskurn á sýn míns flokks, Samfylkingarinnar, lífsgildum okkar og lífssýn, og þeirra flokka sem standa að núverandi ríkisstjórn. Ég tel þetta ekki rétt. Við vorum byrjuð á síðasta kjörtímabili að færa fjármuni í auknum mæli yfir í húsaleigubótakerfið. Það voru farnir að koma fjármunir frá ríkinu til sveitarfélaga til þess. Menn voru því lagðir af stað í að jafna þann mun sem er á milli leigjenda og eigenda. Ég tel að það skipti mjög miklu máli að því verði haldið áfram en mér er algerlega óskiljanlegt hvers vegna það er ekki hluti af svona heildstæðum pakka og hér er með jafn miklum útgjöldum og hér er um að ræða.

Virðulegi forseti. Þessi forgangsröðun hugnast mér ekki þó að ég sé í grunninn sammála því að það séu heimili sem þurfi stuðning. Aðferðafræðin sem þessi ríkisstjórn beitir er að mínu mati röng. Það er verið að senda allt of mikla fjármuni til fólks sem þarf ekkert á þeim að halda, ekki neitt, á meðan verið er að senda núll-tékka til fólks sem þarf svo sannarlega á því að halda að fá stuðning frá hinu opinbera. Það er kjarni málsins í þessum tillögum. Það á við um þetta verkefni hér, þar sem þeir sem hafa hæstu tekjurnar hafa möguleika á því að fá mest út úr þessu fyrirkomulagi og þeir sem hafa lægstu tekjurnar hafa minnsta möguleikana á því, og þeir sem hafa allra lægstu tekjurnar, lífeyrisþegar og öryrkjar, hafa enga möguleika. Þetta finnst mér vond forgangsröðun.

Það er allt í lagi að taka pólitíska ákvörðun um að miða inn á ákveðna hópa. Það er þá bara kosið um það. Það er þá bara kosið á milli ólíkra flokka í kosningum. Menn gera það þá bara upp við Framsóknarflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn í næstu kosningum ef mönnum líkar ekki sú forgangsröðun. En það sem er öllu verra, í því hvernig við erum beðin um að afgreiða þetta hér, þingmenn, er öll þessi óvissa um áhrifin á ríkissjóð.

Í hvaða stöðu erum við þingmenn til dæmis varðandi þessi mál ef við höfum kannski ákveðna simpatíu gagnvart þeim og erum til í að greiða leið þeirra? Megum við það samvisku okkar vegna ef tékkinn er eitt stórt spurningarmerki langt fram í tímann? Ef það er líka eitt stórt spurningarmerki á hverjum það mun bitna? Mér þykir það mjög erfitt vegna þess að ég er ekki til í að taka þátt í einhverjum stundarhasar þar sem menn ákveða að ryðja í gegn máli sem skilur eftir svona stórar spurningar. Mér finnst það mjög erfitt. Það er verið að biðja okkur þingmenn um mjög stóran hlut, ég minnist þess ekki að hafa nokkurn tíma — er búin að vera hér í ein 11 ár — verið beðin um að skrifa upp á jafn stóran óútfylltan tékka og í fullkominni óvissu um hver muni á endanum greiða það allt saman. Þessum vinnubrögðum vil ég beinlínis kasta í fangið á þessari ríkisstjórn, þetta eru ekki vinnubrögð sem eiga að líðast hér. Við eigum að hafa svona hluti á hreinu. Við eigum fullt af sérfræðingum úti um allt sem gætu hjálpað okkur að vinna góðar greiningar á þessu. Við eigum ekkert að spara í því vegna þess að reikningurinn getur orðið svo stór að menn mundu þurfa að spyrja sig hvort það borgaði sig eða ekki.