143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[19:01]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu. Hv. þingmanni var tíðrætt um þá sem fá ekki neinar leiðréttingar á forsendubresti í þessu frumvarpi. Ég vil byrja á því að spyrja hv. þingmann um lágtekjufólkið. Nú voru gerðar kröfur fyrir lágtekjufólk í almennum kjarasamningum 21. desember sl. um að fá persónuafsláttinn lækkaðan. Það mundi gagnast lágtekjufólki vel og mundi mæta þeim skattalækkunum sem millitekjuhópar hafa verið að fá, þeir sem eru best settir. En það er ekki hlustað á það. Ef tökum þessa aðgerð þar sem skattafslættir eru veittir og eru miklu hærri á þá sem hafa möguleika á að leggja meira til hliðar og hafa hærri tekjur, hvernig sér hv. þingmaður hana samanborið við forgangsröðun ríkisstjórnarinnar? Segir þetta ekki allt sem segja þarf um viðhorf ríkisstjórnarinnar til þeirra sem minna mega sín og eru í baráttu fyrir því að halda heimili sín, ná endum saman þegar forgangsröðun er á þessa vegu? Það er verið að leggja gífurlegar byrðar á komandi kynslóðir og alveg jafnt á lágtekjufólk í framtíðinni, því miður verða alltaf einhverjir hópar sem teljast til lágtekjufólks og í framtíðinni munu þeir hafa minni möguleika á að fá stuðning í gegnum velferðarkerfið vegna tapaðra skatttekna ríkisins, bæði hjá sveitarfélögum og hjá ríkinu.