143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[19:05]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Takk fyrir svarið, hv. þingmaður. Mig langar aðeins að beina sjónum mínum að landsbyggðinni í stóra samhenginu varðandi þessar aðgerðir, hvort hv. þingmanni þyki ekki nauðsynlegt að fram fari einhver greining á áhrifum þessara aðgerða á íbúðaeigendur á landsbyggðinni versus íbúðaeigendur á stór-Reykjavíkursvæðinu.

Við vitum að það var minni skuldsetning vegna íbúðarkaupa úti á landi, það var engin húsnæðisbóla á landsbyggðinni. Þess vegna virðist vera eðlilegt í því samhengi að þessi stuðningur og afsláttur af skatttekjum af hálfu ríkisins fari fyrst og fremst hér á höfuðborgarsvæðið, en sá afsláttur er auðvitað á kostnað sameiginlegs ríkissjóðs okkar allra landsmanna. Hvað þykir hv. þingmanni um það að þeir sem búa á landsbyggðinni fái ekkert sambærilegt í sinn hlut við þessar aðgerðir?