143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[19:07]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla bara að viðurkenna það hér að ég hef ekki kynnt mér þá hlið málanna, hvort og hvaða áhrif þetta hefur á landsbyggðina annars vegar og höfuðborgarsvæðið hins vegar. Ég hef ekki skoðað það þannig að ég get ekki svarað því. En þetta er auðvitað ein af þeim breytum sem við vildum hafa betri sýn á, þ.e. að menn hefðu farið dýpra í það líka, sérstaklega þegar um er að ræða svona risastóra aðgerð þá er það mín skoðun að menn eigi að skoða það út frá búsetu, þ.e. landsbyggð og höfuðborg, menn eiga að skoða þetta út frá kynjabreytunum, tekjubreytunum o.s.frv. Og kynslóðabreytan verður líka að koma þarna inn þannig að menn þurfa að fara í mörgum lögum yfir svona aðgerðir til að meta hvaða áhrif þær munu hafa á ólíka hópa. Það finnst mér vanta mjög í því frumvarpi sem við höfum hér og það hefur ekki verið bætt, ekki nægilega. Þótt nefndin hafi unnið ágætisstarf þá hefur að mínu mati ekki nægilega verið bætt þar á í vinnu nefndarinnar.