143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[19:14]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hennar og yfirferð. Mig langar í fyrra andsvari mínu að koma inn á það sem hv. þingmaður vék rétt að í lok ræðu sinnar og varðar í raun og veru kosningaloforðin sem gefin voru fyrir síðustu þingkosningar, einkum og sér í lagi af Framsóknarflokki og frambjóðendum þeirra, forustu flokksins sem talar um stóra kosningaloforðið og einhverjir hafa talað um að það ætti að setja heimsmet í skuldaleiðréttingu. Eins og hv. þingmaður gat um voru menn jafnvel að tala um að það gæti skapast svigrúm í samningum við kröfuhafa upp á um 300 milljarða sem mundu þá nýtast í aðgerðir af þessum toga. Hvernig sér hv. þingmaður þetta í ljósi þess sem er að birtast okkur í þessum málum, bæði þessu máli og öðrum sem koma fram frá hæstv. ríkisstjórn, annars vegar þegar haft er í huga að í því máli sem er til umræðu er fyrst og fremst verið að ræða um að fólk geti nýtt eigin sparnað til að greiða inn á höfuðstól skulda sinna? Máttu kjósendur ætla að það væri hluti af þessum stóra pakka af hálfu hrægammanna, að það væri einfaldlega verið að nýta eigin séreignarsparnað? Og hins vegar: Telur þingmaðurinn að menn hafi átt að eiga von á því að reikningurinn væri svo að umtalsverðu leyti sendur á skattgreiðendur og jafnvel skattgreiðendur til langrar framtíðar?