143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[19:19]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Ég deili að mörgu leyti þeim viðhorfum sem hún kom fram með í svari sínu.

Ég vildi gera annað mál hér að umtalsefni. Um það er meðal annars fjallað í nefndaráliti minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar en það lýtur að kynslóðatilfærslum. Þar eru færð rök fyrir því að með því að afsala ríki og sveitarfélögum umtalsverðum framtíðartekjum, til að standa undir grunnþjónustunni í samfélaginu, sé verið að setja reikninginn yfir á framtíðarskattgreiðendur, komandi kynslóðir. Væntanlega, og ég vil inna hv. þingmann eftir því, hvort hún sé sammála í því, mun þessi reikningur birtast annaðhvort í hækkandi sköttum í framtíðinni, hækkuðum þjónustugjöldum, niðurskurði á þjónustu eða aukinni skuldsetningu.