143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[20:12]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Við höfum verið að ræða frumvarp til laga um séreignarsparnað og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og til húsnæðissparnaðar. Umræðan hefur verið mjög málefnaleg og margir hv. þingmenn hafa tekið til máls og rökrætt frumvarpið í þaula enda er það mjög verðskuldað að umræðan sé ígrunduð og allar upplýsingar komi fram. Þetta er víðtækt frumvarp sem snertir heimilin og marga hópa í samfélaginu. Það var ljóst frá því að núverandi ríkisstjórn tók við að hún setti fólkið í forgang og hafði að leiðarljósi að leiðrétta hér forsendubrest með jákvæðum hvötum þar sem öllum yrði gefið tækifæri til að horfa til framtíðar og sér í lagi að vinna á húsnæðisskuldum sem þetta frumvarp gefur að stórum hluta til færi á. Fólki er í raun og veru hjálpað að hjálpa sér sjálft með skattafslætti á séreignarsparnað til að ná niður höfuðstól húsnæðisskulda.

Ég ætlaði ekki að koma hingað og lengja umræðuna, okkar bíða ærin verkefni, frekar vil ég þakka hv. þingmönnum fyrir umræðuna og þær góðu ræður sem hafa verið haldnar um þetta mál. Ég ítreka það sem kom fram í framsögu að hér er verið að hvetja til sparnaðar og til lengri tíma litið mun aukning þess sparnaðar koma fram í því að fólk eignast meira eða stærri hlut í fasteignum sínum en ella. Að því sögðu vona ég að þetta mál fái framgang hér.