143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[20:52]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir framsöguræðuna. Það er af mörgu að taka í því viðamikla frumvarpi sem hér er til umræðu en ég ætla aðeins að staldra við eitt efnisatriði.

Í 3. gr. frumvarpsins er fjallað um afmörkun leiðréttingar. Þar segir, með leyfi forseta:

„Leiðrétting samkvæmt lögum þessum tekur til verðtryggðra fasteignaveðlána sem veitt voru einstaklingum af lögaðilum sem uppfylla, eða uppfylltu á tímabilinu 1. janúar 2008 til 31. desember 2009, sömu skilyrði og lögaðilar skv. 1. mgr. 2. gr.“

Það er sem sagt verið að tala um þá sem voru með fasteignaveðlán til húsnæðiskaupa á þessu tímabili, 2008 og 2009.

Á bls. 4 í nefndaráliti meiri hlutans er fjallað um aðra hópa. Þar segir, með leyfi forseta:

„Það er því ljóst að frumvarpið felur í sér úrræði sem ætluð eru þeim hópi sem var með verðtryggt fasteignalán vegna húsnæðis til eigin nota á tilteknu tímabili og varð fyrir skakkaföllum af þeim sökum.“

Nú er það þannig að framkvæmdin, samkvæmt 11. og 12. gr. frumvarpsins — ég ætla nú aðallega að beina sjónum að 12. gr., þ.e. þeim hópi sem var með skuldir á þessu tímabili og á rétt, samkvæmt formúlu frumvarpsins, á leiðréttingu, en hefur af einhverjum ástæðum selt eignir sínar, flutt úr landi og er ekki með launatekjur á Íslandi, getur ekki notað leiðréttingu til að fara inn á höfuðstólinn vegna þess að það er ekki lengur með lánið, og getur ekki nýtt sér persónuafsláttarleiðina samkvæmt 12. gr. En samkvæmt formúlu frumvarpsins og samkvæmt því sem stendur í nefndaráliti meiri hlutans á þetta fólk engu að síður rétt á leiðréttingu vegna þess að það varð fyrir skakkaföllum.

Ég spyr hv. þingmenn: Hvernig ætlar nefndin að taka á þessu álitaefni?