143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[21:01]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður talar um að 20 milljarðar sé kannski ekki svo stór upphæð. En það er nú til dæmis allt framhaldsskólakerfið á einu ári, það kostar um 20 milljarða kr. Ef við þurfum að skera niður í velferð og menntakerfi fyrir því tjóni sem hlýst af frumvarpinu þá eru miklir erfiðleikar þar undir. Hætta er á því að frumvarpið valdi þenslu og verðbólgu og það komi niður á kjörum almennings.

Ég vil einnig spyrja hv. þingmann hvort hann telji ekki að frumvarpið ýti undir óréttlæti og mismunun í þjóðfélaginu, ýti undir ójöfnuð þar sem ákveðnir hópar njóta ekki þeirra gæða sem stjórnarmeirihlutinn og hæstv. ríkisstjórn er að úthluta og eftir standa hópar sem fyrir eru veikburða en njóta ekki þessara gæða, en þeir sem betur standa fá hins vegar stærsta hlutann.