143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[21:02]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Frosti Sigurjónsson) (F) (andsvar):

Ég þakka fyrir spurninguna. Ég held að ég hafi ekki sagt að þetta væri lág tala heldur væri hún ekki hátt hlutfall af heildarútgjöldum ríkisins eða heildarfjárlögum, sem eru hátt í 600 milljarðar en þetta eru 20 milljarðar á árinu. Þess vegna vildi ég benda á að það væru rúm 3% og væri þess vegna ekki líklegt til að hafa stórvægileg neikvæð áhrif í stóru myndinni.

Ég held hins vegar hvað varðar það hvort þetta auki eða minnki misskiptingu, það sé mjög áhugaverð spurning ef við veltum fyrir okkur óréttlætinu sem felst í því að 13 þúsund fjölskyldur fengu leiðréttingu upp á 110 milljarða með gengislánadómunum og 13 þúsund fjölskyldur fengu hátt í 50 milljarða með 110%-leiðinni og eftir sitja þau heimili sem hafa alltaf staðið í skilum, heimilin með verðtryggðu lánin, sem hafa í rauninni bara borgað og borgað og horft upp á það að ef þau hefðu farið svo óvarlega að taka gengistryggð lán hefðu þau verið í betri stöðu.

Núna er verið að minnka það óréttlæti. Auðvitað er ekki hægt að eyða öllu óréttlæti með einni aðgerð og vinna er fram undan í því að hjálpa öðrum hópum, eins og við komum inn á í nefndaráliti okkar. En þetta er vissulega stórt verkefni og stór spurning.

Þetta frumvarp er verkfæri sem er hannað til þess að hjálpa hátt í 70 þúsund heimilum. Það mætti líkja því við hamar, oft þegar maður réttir barni hamar verður allt að nagla, en þetta verkfæri er hannað fyrir þann nagla sem er af þessari tegund og það þarf önnur verkfæri til að leysa önnur vandamál.