143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[21:04]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar sem ég stend að um þetta mál, leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána.

Ég vil í upphafi minna á að við í Samfylkingunni lögðum á það áherslu í aðdraganda síðustu kosninga að mikilvægt væri að grípa til aðgerða, frekari aðgerða, til þess að mæta þeim skuldugu heimilum sem sannanlega hefðu ekki þegar fengið fullnægjandi úrlausn.

Eins og fram kom í ágætri samantekt sérfræðingahóps ríkisstjórnarinnar 30. nóvember sl. var gríðarlega margt unnið á síðasta kjörtímabili af hálfu stjórnvalda til þess að vinna á skuldavanda heimila, en þrátt fyrir margar tilraunir tókst hvorki að finna fjármagn né praktíska leið til að koma stuðningi nákvæmlega til þess hóps sem sannanlega var misgengishópur þegar liðið var fram á árið 2012–2013, fólkið sem keypti á versta tíma árin fyrir hrun og er enn þann dag í dag í þeirri stöðu að fasteignaverð hefur ekki náð að rísa meira en sem nemur hækkun hinna verðtryggðu lána sem á húsnæðinu hvíla.

Hugmyndin um forsendubrest hlýtur að fela í sér að samhengið milli lána og þeirrar eignar sem að baki láninu stendur raskist, að verðþróun eignarinnar verði þannig að lánið hækki umfram það sem eignin hækkar í verði, annars verður ekkert tjón. Og það er sannanlega þannig að ákveðnir hópar sem keyptu á versta tíma á árunum fyrir hrun þegar fasteignaverðið var sem hæst urðu fyrir slíku misgengi.

Í aðdraganda síðustu kosninga sögðum við þess vegna að mikilvægt væri að finna leið til þess að mæta þeim hópi. Við vildum líka finna fjármagn til þess að gera Íbúðalánasjóði kleift að mæta viðskiptavinum sínum með sama hætti og viðskiptabankar höfðu gert í 110%-leiðinni, og við vildum tryggja að þörfum lánsveðshópsins yrði mætt þannig að hann nyti jafnstöðu við aðra.

Við töldum að þau verkefni sem eftir væru mundu kosta einhvers staðar í kringum 60–80 milljarða. Ég nefndi þá tölu ítrekað í aðdraganda síðustu kosninga. Og við töldum að það væri réttlætanlegt að leggja skatta á fjármálafyrirtæki til þess að fjármagna þessa úrlausn, til að ljúka úrvinnslu skuldamála í kjölfar hruns. Allar tilraunir okkar í stefnumörkun á árunum 2012–2013 miðuðu að því að afmarka þennan hóp og finna leiðir til þess að leiðrétta það misgengi sem sannanlega var óbætt.

Sú aðgerð sem ríkisstjórnin hefur núna lagt til er áþekk að umfangi. Við studdum enda álagningu bankaskattsins fyrir síðustu áramót vegna þess að við töldum ástæðu til þess að afla slíks fjár en áskildum okkur rétt til að koma fram með athugasemdir og ábendingar um það hvernig best væri að verja því fé. Sú leið sem ríkisstjórnin leggur nú til er ekki skynsamleg í þá veru. Hún hefur algjörlega gefist upp á því að reyna að skilgreina eitthvað sem heitir forsendubrestur, að reyna að skilgreina hverjir það eru sem raunverulega hafa orðið fyrir misgengi sem ekki hefur þegar verið bætt.

Tökum dæmi af fólki sem kaupir á árinu 2007 og sannanlega er í þeirri stöðu að lán hefur hækkað miklu meira en fasteignaverð. Það fólk hefur orðið fyrir misgengi og það eru réttlætisrök með því að bæta það misgengi, hvort sem menn kalla það forsendubrest eða eitthvað annað.

Tökum svo annað dæmi af fólki sem ég þekki, af manninum sem keypti hús úti á Seltjarnarnesi árið 1997 á tæpar 12 millj. kr. Það hús hefur margfaldast í verði. Lánið hefur ekki hækkað að sama skapi. Sá maður hefur ekki orðið fyrir neinu tjóni. Eða maðurinn sem keypti hús í Þingholtunum á 19 milljónir ári seinna, 1998, sem hefur líka margfaldast í verði.

Ríkisstjórnin gerir í tillögum sínum engan greinarmun á þeim sem eru með verðtryggð lán, eins og þessi tveir ágætu menn, vegna íbúðarkaupa sem þeir hafa þó hagnast verulega á, og svo hinum sem hafa orðið fyrir misgengi, séð eign sína rýrna. Þessir menn báðir hafa séð eign sína vaxa og hún hefur vaxið. Hún er að raunvirði í dag, innleysanlegu raunvirði, miklu meira virði en hún var þegar hún var keypt og lánið hefur vissulega vaxið en það hefur vaxið minna en sem nemur verðaukningu eignarinnar. Það er með ólíkindum að bera bætur á þessa menn því að þeir hafa ekki orðið fyrir neinu tjóni. Það er óskynsamleg og óforsvaranleg ráðstöfun á skattfé, vegna þess að ef við viljum bæta tjón þá er eðlilegt að afmarka sig við þá sem fyrir tjóni hafa orðið og það eru ekki þessi hópar.

Það var mögulegt fyrir ríkisstjórnina að leita leiða til að afmarka þessa hópa, en engin tilraun hefur verið til þess gerð. Það sem meira er, það eru ekki heldur sett nein efri mörk, hvorki við eignum né tekjum þeirra sem fá þessar bætur. Þannig er það að um 400 heimili sem eru samtals með 44 milljarða kr. í hreina eign og hafa borgað auðlegðarskatt, skulda hins vegar að meðaltali 9,7 milljónir í húsnæðislán og munu njóta leiðréttingar alveg óháð tekjum og eignum samkvæmt þessum tillögum. Fólk sem á 44 milljarða í hreina eign mun fá skattfé til að lækka skuldir sínar. Það er óforsvaranleg meðferð á almannafé.

Virðulegi forseti. Í ræðu minni við 1. umr. rakti ég nokkuð hinn sérkennilega lögfræðilega umbúnað þessa máls. Ríkisstjórnin reyndi í sumar í þingsályktunartillögunni að skilgreina hugtakið „forsendubrest“. Þá var það skilgreint sem verðbólguskot áranna 2007–2010. Mér fannst það virðingarverð tilraun.

Núna eru engin efnisleg viðmið í frumvarpinu. Ég held að það sé lögfræðilegt einsdæmi að lagt sé fram lagafrumvarp um svo gríðarlega útdeilingu fjár án þess að efnislegar forsendur útdeilingarinnar liggi fyrir og það sé leitun að því í lýðræðisríki að gengið sé fram með þessum hætti. Hugtakið „forsendubrestur“ kemur fram í skýringum við þrjár greinar frumvarpsins, það er ekki skýrt í frumvarpinu, og ég sé ekki að það hafi sömu merkingu í öllum þeim þremur tilvikum.

Forsendur peningaúthlutunarinnar eru ekki heldur ákveðnar fyrir fram. Ráðherra er veitt alvald til þess að ákveða viðmiðunarvísitöluna, hún er ekki ákveðin hér. Það er bara ákveðið að eyða peningunum en efnislegu forsendurnar eru ekki ákveðnar. Það er enginn lögfræðilegur grunnur, enginn réttlætisgrunnur skapaður, það er fullt valdframsal til ráðherra til að ákveða peningaútdeilingu úr ríkissjóði og með reglugerð á hann að geta ákveðið hvað hver fær mikið og það er ekki á grundvelli verðleika eða réttar heldur á grundvelli eigin geðþótta.

Í því sambandi er vert að minna á að eitt helsta vandamálið við framkvæmd skuldaúrvinnslu á síðasta kjörtímabili og alveg frá hruni hefur verið skortur á nothæfum upplýsingum. Einn ágætur þingmaður, sem stendur nú hér í gætt þingsalarins, sagði fyrir nokkrum árum að tilraunir okkar til að leysa úr skuldavandanum minntu hana helst á mann sem væri á hlaupum í myrkri og þoku með plástur í örvæntingarfullri leit að sári í þeirri veiku von að plásturinn passaði á sárið þegar það loksins fyndist. Það er líklega ekkert ofmælt í þeirri lýsingu hv. þm. Svandísar Svavarsdóttur.

Þess vegna lögðum við margsinnis til á síðasta kjörtímabili að fundnar yrðu leiðir til að afla betri og gleggri upplýsinga. Þess vegna studdum við ríkisstjórnina í frumvarpi hér í haust um að veita Hagstofunni ríkar heimildir, fordæmalausar heimildir til að afla upplýsinga um skuldastöðu einstaklinga til þess að skýra betur hvar skórinn kreppi og hvar úrbóta sé þörf. Við samþykktum þessar heimildir í septembermánuði í þeim tilgangi að þeirra upplýsinga þyrfti að afla til að framkvæma leiðréttingu húsnæðislána til samræmis við stefnumörkun ríkisstjórnarinnar.

Það er mér því gersamlega hulin ráðgáta af hverju ríkisstjórnin beið ekki eftir niðurstöðu þeirrar greiningar, því að ég held að það hefði verið hægt að nýta fjármagnið mun betur og finna miklu, miklu betri umgjörð utan um leiðréttingu á sanngirnisforsendum ef gleggri gögn hefðu legið til grundvallar. Það er eiginlega þannig að það vekur sérstaka undrun hversu lítil gögn liggja þó til grundvallar þessari aðgerð. Ég hef gert tvær tilraunir til að kreista út úr ríkisstjórninni og hæstv. forsætisráðherra greiningu á grunnþáttum aðgerðarinnar, fyrst með fyrirspurn 2. desember sl. og svo með skýrslubeiðni 20. janúar sl. eftir ég hafði fengið afar snautlegt svar frá hæstv. forsætisráðherra við fyrri fyrirspurn minni. Skýrslan er komin og í hvorugu gagninu er að finna þá greiningu sem ég óskaði eftir. Ég óskaði eftir greiningu eftir tekjum, eignum, skuldum og eftir því hversu margir sem nú eru í greiðsluvanda mundu komast úr greiðsluvanda með þessari aðgerð og hversu stór hluti aðgerðarinnar mundi nýtast þeim sem eru með óverulegan eða jafnvel lítinn sem engan húsnæðiskostnað, undir 20%, undir 10%.

Ég hef aldrei fengið neinar greiningar í þá veru, þrátt fyrir allar þessar ítrekuðu tilraunir. Þær virðast ekki liggja fyrir. Það er sérstaklega undarlegt vegna þess að haustið 2010 tókst okkur í ríkisstjórninni að vinna slíkar greiningar á tillögunum sem voru í vinnslu. Ég verð að þakka málefnalega samvinnu á þeim tíma, haustið 2010, við fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sem þá var í stjórnarandstöðu, sérstaklega við hv. þm. Pétur H. Blöndal og hv. fyrrverandi þingmann Ólöfu Nordal sem komu fram fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins í þessum málum og unnu með okkur, þegar ég sat í ríkisstjórn á þeim tíma, á mjög málefnalegan hátt til þess að reyna að greina til fulls vandann og finna lausnir á honum.

Í þessu máli nú er engin tilraun gerð til að reyna að greina vandann og engin tilraun gerð til að reyna að gæta þess að fjármagnið skili sér til þeirra sem raunverulega hafa orðið fyrir tjóni. Þvert á móti er allt kapp lagt á að bera fé jafnvel á fólk sem hefur hagnast á þróun síðustu ára.

Virðulegi forseti. Það er svo önnur hlið þessa máls að Ísland hefur um áratugi verið verðbólgusamfélag. Hér er verðbólga landlæg og hún hefur verið meiri hér en í öðrum vestrænum löndum alla tíð. Það er auðvitað spurning, stór spurning, að ákveða það nú að tjón af völdum verðbólgu hjá ákveðnum þjóðfélagshópi skuli bætt úr ríkissjóði. Það hefur aldrei áður verið gert. Verðbólga hefur oft verið meiri en hún var á viðmiðunartímabilinu núna. Hv. þm. Pétur H. Blöndal rekur það ágætlega í ágætu nefndaráliti sínu sem hann mun mæla fyrir síðar í kvöld. Það er mjög undarlegt að ákveða að þetta sé bótaskylt tjón úr ríkissjóði. Í öllu falli, ef þetta er bótaskylt tjón úr ríkissjóði, er þá ekki hagnaður af verðbólgu líka eign ríkissjóðs með réttu? Ef ríkið á að bæta tjón af verðbólgu úr ríkissjóði á ríkið þá ekki að geta aflað sér tekna með því að skattleggja gróða af verðbólgu? Fyrir því eru mörg fordæmi.

Á 5. og 6. áratug síðustu aldar voru ítrekað lagðir skattar á sérstaka aðstöðu, á tímabundinn gróða. Það hefði alveg verið full ástæða til þess að leggja slíka skatta á nú. Hverjir voru það sem högnuðust á gengisfallinu sem leiddi til verðbólgunnar? Jú, einkanlega útgerðin, ferðaþjónustan. En ríkisstjórnin hefur þvert á móti lagt allt kapp á að lækka álögur á þær greinar þannig að það er engin samkvæmni í nálgun hennar gagnvart verðbólgunni. Ef tjón vegna verðbólgu er tjón ríkisins þá hlýtur hagnaður af verðbólgu líka að vera réttlætanlegt andlag skattlagningar fyrir ríkið.

Virðulegur forseti. Ójafnræðið er svo alveg sérstakur þáttur þessa máls. Hér er talað um leiðréttingu í þágu heimilanna. Fátt er fjær sanni. Hér er heimilum mismunað endalaust og fólk í fullkomlega sambærilegri stöðu látið njóta fullkomlega ólíkrar meðferðar. Ég hef verulegar efasemdir um að ákvæði frumvarpsins að þessu leyti standist ákvæði stjórnarskrárinnar, jafnræðisákvæði hennar. Ég ætla bara að fara í gegnum nokkur atriði.

Í fyrsta lagi léttir aðgerðin skuldabyrði fasteignaeigenda en hún bætir ekki almennt tjón af verðbólgu. Það er fullt af öðru fólki sem hefur orðið fyrir tjóni af verðbólgu en fær það ekki bætt. Það er fyrsta mismununin. Þarna má nefna námsmenn. Síðan er það þannig að þetta nær aðeins til skuldara verðtryggðra húsnæðislána en líka þeirra skuldara sem ekki hafa orðið fyrir tjóni, eins og ég rakti áðan. Þar er því alls ekki nein jafnræðisregla látin liggja að baki. Svo, eins og kom fram í andsvörum áðan milli hv. þingmanna Frosta Sigurjónssonar og Árna Þórs Sigurðssonar, eru það alls ekkert allir skuldarar fasteignaveðlána á þessum sama tíma sem njóta sama réttar þó að þeir hafi verið í fullkomlega sambærilegri stöðu. Ef fólk er svo ógæfusamt að hafa flúið þessa ríkisstjórn til annarra landa, selt húseign sína, þá getur það ekki nýtt sér leiðréttinguna nema það geri það hér til þess að öðlast réttinn að flytja aftur til landsins innan þess tíma sem aðgerðin tekur til.

Tillagan bætir ekki heldur á almennan hátt húsnæðiskostnað, hún þvert á móti mismunar eftir formum húseigna. Alvarlegasta dæmið, sem ég tel að sé augljósast að standist ekki ákvæði stjórnarskrárinnar, er mismunurinn milli skuldara í húsnæðissamvinnufélögum sem sérstaklega eru undanþegnir því að fá að njóta þessa úrræðis með sérstöku ákvæði í 3. gr. laganna sem og skuldarar í leigufélögum, sem sagt leigjendur. Búseturéttarhafar í húsnæðissamvinnufélögum njóta algerlega sérgreinds réttar og sérgreindrar ábyrgðar. Þeir borga af tilgreindu láni, sem er fært í skattframtal á nákvæmlega sama hátt og lán þeirra sem búa í eigin húsnæði. Samt er af þessu fólki tekinn rétturinn, algjörlega án nokkurra efnislegra raka. Þetta fólk er í fullkomlega sambærilegri stöðu. Það borgar fullkomlega af verðtryggðu láni á nákvæmlega sama hátt og þeir sem búa í eigin húsnæði, einu og sama láninu, ekki upp í einhverja almenna púllíu, af tilteknu láni sem þinglýst er á viðkomandi íbúð. Og þeir eru undanskildir réttinum án nokkurra efnislegra raka.

Einu rökin sem eru færð fram eru þau að í hinni hörmulegu þingsályktun, sem hér var illu heilli samþykkt í sumar, hafi umboð ríkisstjórnarinnar verið afmarkað þannig að þá þegar hefðu húsnæðissamvinnufélög verið undanskilin. Já, miklu veldur sá sem upphafinu veldur, vissulega, og vissulega er það rétt að þessi þingsályktun hefði aldrei átt að samþykkjast í því formi sem hún var samþykkt. En hún gengur ekki framar stjórnarskrá landsins og hún er á ábyrgð meiri hluta þings sem samþykkti hana, þeirra þingmanna sem samþykktu þá þingsályktun.

Við í Samfylkingunni lögðum sérstaklega til breytingartillögu um að umboðið yrði líka látið ná til húsnæðissamvinnufélaga og sú tillaga var felld í þessum sal. Ábyrgðin er því fullkomlega á herðum stjórnarliðsins að hafa á þennan hátt afmarkað málið. Fyrir því eru engin efnisrök, það stenst ekki stjórnarskrá og það er ekki hægt að skýla sér á bak við þingsályktun sem maður hefur sjálfur samið og samþykkt þegar maður brýtur stjórnarskrá.

Sama á síðan við samkvæmt 3. gr. um leigjendur vegna þess að leigufélög njóta ekki heldur leiðréttingarinnar. Það ætti að vera augljóst að láta leiðréttinguna ná til lokaðra leigufélaga sem er ekki hægt að greiða arð út úr, því að það er alveg ljóst að þau félög, Félagsstofnun stúdenta, Brynja, hússjóður Öryrkjabandalagsins, munu ekkert annað geta gert við peningana en að lækka leiguna. Af hverju er verið að undanskilja þetta fólk? Ég hef enga skýringu séð aðra en þá að stjórnarmeirihlutinn virðist haldinn djúpstæðri óbeit á búseturéttarforminu og á húsaleiguforminu og að það fólk sem leigir og það fólk sem er búseturéttarhafar sé einfaldlega sett skör lægra sem borgarar í landinu. Það hafa engin efnisleg rök verið færð fram fyrir því að undanþiggja búseturéttarhafa eða leigjendur, engin. Enda þarf sérstakt ákvæði í lögin, 3. gr., til að undanskilja þá. Það þarf sérstaka lagaheimild til þess að mismuna þeim, af því að þeir eru í svo fullkomlega sambærilegri stöðu við aðra.

Virðulegi forseti. Það eru fleiri undanþágur hér sem er erfitt að skilja. Rétturinn er bundinn við þá sem tóku verðtryggð lán á sínum tíma. Nú er það svo að skuldarar í ýmsum bönkum voru taldir samkvæmt dómum vera með gild og lögleg gengistryggð lán. Þeim hefur í ýmsum tilvikum verið umbreytt samkvæmt lögunum nr. 151/2010 í verðtryggð lán. Þau eru því að öllu eðli og öllu afborgunarferli sambærileg við verðtryggð lán sem tekin voru í upphafi. Þetta eru skuldarar hjá Íslandsbanka, SPRON og Frjálsa fjárfestingarbankanum. Meiri hluti nefndarinnar vitnar til þess að á einhverri vefsíðu standi eitthvað um hvernig umbreyting lánanna hafi farið fram hjá einni fjármálastofnun. Það er algjörlega fráleitt að láta fólk ekki njóta almenns réttar í þessu efni. Það er þá hægt að draga það frá ef fólk hefur notið einhverra frekari lækkana en ég efast um að svo sé í öllum tilvikum.

Lánsveðshópurinn er skilinn eftir. Ríkisstjórnin er búin að klúðra því að láta lífeyrissjóðina kosta að einhverju leyti lækkun lánsveðsskuldanna og það að setja lánsveðshafa í sambærilega stöðu við aðra sem skulda meira en sem nemur verðmæti eigna. Gengið var frá samkomulagi í þá veru í tíð síðustu ríkisstjórnar sem núverandi ríkisstjórn hefur ekki efnt fyrir sitt leyti. Það fól í sér að lífeyrissjóðir áttu að borga 12% af öllum lánsveðum og þar með átti að gera þau upp og ríkið að taka þau yfir. Hæstv. fjármálaráðherra sagði að honum þættu 12% ekki nóg, lífeyrissjóðirnir væru að sleppa of billega. Hvað felur þessi aðgerð í sér? Jú, veðstaða lífeyrissjóðanna er bætt, lánsveð lífeyrissjóðanna, sem koma fyrir aftan önnur fasteignalán í langflestum tilvikum, komast nú framar í veðröðina vegna þess að þessi aðgerð felur í sér greiðslu inn á 1. veðrétt allra lána. Einhliða er því lífeyrissjóðunum gefin bætt veðstaða allra sinna lánsveðslána að kostnaðarlausu. Og síðan kemur leiðréttingin hér inn.

Er það furða að eini aðilinn sem fagnar þessu frumvarpi sé Landssamband lífeyrissjóða? Lausir algjörlega við að leggja nokkuð af mörkum til umbreytingar skuldastöðu heimilanna í boði þessarar ríkisstjórnar, létta af lífeyrissjóðunum allri samfélagslegri ábyrgð, að axla endurmat fasteignaskulda í kjölfar efnahagshruns.

Virðulegi forseti. Dreifing skuldaniðurfellinganna er svo kapítuli út af fyrir sig sem ég vék aðeins að áðan. Ég óskaði sérstaklega við meðferð málsins í nefndinni eftir upplýsingum um eftirfarandi:

Hversu stór hluti skuldaleiðréttingar fer til fólks með mjög lágan húsnæðiskostnað?

Þá er ég að horfa til undir 20% af ráðstöfunartekjum sem er alþjóðlegt viðmið um mjög léttan húsnæðiskostnað. Við höfðum tölur um það haustið 2010 og það er mér hulin ráðgáta að ríkisstjórnin hafi ekki getað útvegað þær nú.

Hvernig dreifist skuldaleiðréttingin á hópa eftir eign í húsnæði og heildareignum?

Það vantar líka.

Hversu margir sem nú eru í greiðsluvanda komast úr greiðsluvanda vegna aðgerðarinnar?

Við höfðum greiningu á þessu haustið 2010, vissulega byggt á líkönum, áætlunum, en við gátum áætlað það hversu stór hluti þeirra sem var með 40% og yfir af ráðstöfunartekjum í greiðslubyrði kæmust niður fyrir 30% með aðgerðinni og hvaða aðgerðir þyrfti til til að þeir væru á milli 30 og 40%. Við gátum því áætlað býsna vel árangur af aðgerðum.

Í skýrslu sérfræðingahóps ríkisstjórnarinnar haustið 2010 var gríðarlega víðtæk greining á margvíslegum aðgerðum til þess að létta undir með heimilum. Meðal annars var kannað hver kostnaður og árangur af flötum skuldaniðurfellingum yrði, ólíkar leiðir bornar saman. Niðurstaðan var mjög skýr: Mjög fáir mundu fara úr greiðsluvanda við þær aðgerðir, gríðarlegu fjármagni væri varið til þeirra sem hefðu mjög lítinn húsnæðiskostnað, undir 20% af ráðstöfunartekjum. Ríkisstjórnin hirðir ekki einu sinni um að láta reikna þetta, gæti gert það, hefði getað gert það, og hún er búin að fá spurningar frá þingmanni, formanni stjórnarandstöðuflokks í tvígang og beiðni um að láta reikna þetta og henni hefur ekki verið sinnt. Það er auðvitað líka stór spurning um þingræðið í landinu og virðingu Alþingis að forsætisráðherra skuli með þessum hætti geta hunsað skýra beiðni stjórnarandstöðu um grundvallarforsendur svona stórrar aðgerðar eins og um ræðir.

Ráða má af þeim fátæklegu gögnum sem þó liggja fyrir að hér sé um að ræða flutning á peningum frá þeim lakar stæðu, venjulegu fólki, til þeirra betur stæðu, frá landsbyggð til höfuðborgarsvæðisins og frá ungu fólki og öldruðu til fólks á besta aldri.

Hámarksniðurfærslan verður samkvæmt frumvarpinu 4 millj. kr. á heimili. Þegar smáa letrið er skoðað kemur í ljós að frádráttarliðirnir eru svo víðtækir að þar ægir öllu saman, allt er dregið frá, jafnt sértækar lausnir og almennar. Þannig virðist sem ríkisstjórnarmeirihlutinn hafi enga sýn á það hver réttlætisrökin í þessu máli eru. Ef þetta er almenn aðgerð, af hverju er dregið frá það sem var almennt gert áður? Ef þetta er sértæk aðgerð, af hverju er dregið frá það sem var sértækt gert áður? Það er í öllu falli algjörlega órökrétt og fáránlegt að draga bæði frá það sem áður var gert almennt og sértækt. Það er svo óskiljanlegt að það tekur engu tali.

Þegar maður horfir á smáa letrið kemur í ljós að það eru aðeins þeir allra eignamestu, fólkið sem á skuldlausa eign yfir 20 millj. kr. einstaklingar, yfir 30 millj. kr. hjón, sem munu njóta fullra 4 milljóna. Engir aðrir munu njóta fullra 4 milljóna í niðurfellingu, það er óhugsandi, það er ómögulegt, vegna þess að allir hinir fengu óumbeðið í almennri aðgerð sérstakar vaxtabætur og þær dragast frá, sérstakar vaxtaniðurgreiðslur. Þar var ekkert tekið viðmið en þar var eignaviðmiðið með þessum hætti, þannig að eina leiðin til að þú getir fengið 4 millj. kr. er að þú eigir skuldlausa eign sem einstaklingur upp á meira en 20 milljónir eða hjón upp á meira en 30. Það er engin önnur leið, það er óhugsandi.

Þar við bætist að það er ekki allt dregið frá sem er sértækt. Það eru dregnar frá allar lausnirnar fyrir venjulegt fólk, sértæk skuldaaðlögun þar sem fólk þurfti að uppfylla ýmis skilyrði til þess að njóta réttar og mál fóru fyrir nefnd kröfuhafa til þess að lækka skuldir. Greiðsluaðlögun, lækkanir þar munu koma til frádráttar. En þetta eru ekki allar lækkanir skulda í bankakerfinu. Ég óskaði líka eftir því í efnahags- og viðskiptanefnd að aflað yrði upplýsinga frá Fjármálaeftirlitinu eða Seðlabankanum um heildarumfang skuldalækkana til einstaklinga á árunum 2009–2013. Því var ekki heldur sinnt í vinnu nefndarinnar. Fyrir vikið vitum við ekki hversu miklar aðrar skuldaniðurfærslur voru en þær sem hægt er að heimfæra undir sértæka skuldaaðlögun eða greiðsluaðlögun eða 110%-leiðina.

Mismunurinn þar á milli er lækkun skulda til einstaklinga í frjálsum samningum þeirra á milli og einhverra hluta vegna hefur ríkisstjórnin ákveðið að þær lækkanir eigi ekki að koma til frádráttar. Af hverju ekki? Það komu engin rök fyrir því á fundi nefndarinnar. Það er auðvitað hægt að greina þær samkvæmt skattframtölum. Af hverju koma þær ekki til frádráttar líka? Fyrir því eru engin efnisleg rök og þannig er það að þeir sem eru betur tengdir, þekkja fleiri í bankakerfinu, eiga góðan vin einhvers staðar, eiga meiri eignir, geta komið og samið við bankann á forsendum einhvers styrkleika, þeir hafa kannski fengið betri úrlausn, niðurfellingu skulda til samræmis við greiðslugetu og fá núna til viðbótar fulla niðurfærslu, vegna þess að þeir sluppu við að lækkun þeirra skulda væri heimfærð undir sértæka skuldaaðlögun eða 110%-leiðina. Ég veit fyrir víst sjálfur frá tíma mínum sem efnahags- og viðskiptaráðherra að það voru bankar og bankaútibú, það var mismunandi framkvæmd milli útibúa, milli banka á því hvernig niðurfellingar voru heimfærðar. Það voru dæmi um að við mig var sagt: Okkur finnst einfaldlega þetta formlega ferli svo formlegt og flókið að við reynum frekar að ganga frá þessu hratt og afgreiða fólk hratt. Ég gerði engar athugasemdir við það sem ráðherra því að ég vildi lækka skuldir á fólk hratt og ég fagnaði því ef bankarnir gerðu það hratt.

Ekki óraði mig fyrir því að þetta yrði sjálfstæð uppspretta mismununar í boði ríkisstjórnar mörgum árum seinna. Og að menn skyldu láta sér detta í hug að koma með svona ósvífna og ósanngjarna frádráttarliði eins og þá að láta fólk einungis gjalda aðlögunarskuldastöðu af greiðslugetu í þeim tilvikum þegar það fór í gegnum hið formlega ferli en ekki í öðrum tilvikum.

Hér er því boðið heim þeirri hættu að fólk í fullkomlega sambærilegri stöðu fái fullkomlega ósambærilega úrlausn. Menn geta búið hlið við hlið með áþekka skuldastöðu en hafa fengið ólíka úrlausn í bönkunum sínum eftir því hvort bankinn kaus að heimfæra skuldaúrlausnina undir hin tilgreindu úrræði, sértæka skuldaaðlögun eða 110%-leið, og þar af leiðandi getur Jón staðið uppi með það að fá gríðarlega niðurfellingu en Sigurður enga þó að þeir hafi verið í fullkomlega sambærilegri stöðu og fengið sambærilega úrlausn þegar þeir fóru í bankann fyrir nokkrum árum síðan.

Virðulegur forseti. Enn og aftur afmörkunarvandi, skortur á upplýsingum, skortur á úrvinnslu og skortur á vilja ríkisstjórnarinnar til að afmarka þetta mál með einhverjum réttlátum hætti og koma í veg fyrir augljóst óréttlæti.

Þá komum við að efnahagslegum áhrifum þessa máls. Í áliti meiri hluta nefndarinnar segir að það þurfi ekki að hafa áhyggjur af hinum efnahagslegu áhrifum, ekki sé ástæða til að ætla að frumvarpið muni hafa verulega neikvæð efnahagsáhrif, því að umfang þess sé innan við 3,2% af fjárlögum og geta stjórnvöld gripið til ýmissa mótvægisaðgerða til að milda áhrifin frekar ef þörf krefur.

Ég veit satt að segja ekki hvað fjárlagatölur skipta máli í því samhengi, því að það sem skiptir máli við efnahagsáhrifagreininguna er allt annað. Það eru áhrifin á eftirspurn á hagkerfið í heild og það liggur fyrir í greiningu Seðlabankans að við erum að tala um umtalsverðan kostnað í hærri verðbólgu, hærri vöxtum, minni fjárfestingu og veikara gengi. Við reynum að skjóta varlega á það í nefndaráliti mínu, við notum mjög varlegar greiningar og teljum kostnaðinn auðveldlega upp í yfir 120 milljarða kr., kostnað ríkis, heimila og fyrirtækja, áhrif á Íbúðalánasjóð og áhrif á sveitarfélögin. Við notum samt ekki jafn stórar tölur og margir aðrir hafa gert sem hafa verið að freista þess að leggja mat á þetta.

Stjórnvöld geta gripið til ýmissa mótvægisaðgerða til að milda áhrifin, segir meiri hluti nefndarinnar. Hvaða mótvægisaðgerða? Það liggur fyrir að miðað við mat Seðlabankans, miðað við það að nefndin jók á umfang aðgerðarinnar er augljóst að það verður að grípa til aðgerða í ríkisfjármálum á móti. Aðhaldsstig ríkisfjármálanna verður að aukast á móti ef þessi aðgerð á ekki að étast upp á örfáum missirum.

Hv. þm. Guðmundur Steingrímsson lýsti því að með þessu væri verið að hella vatni í leka fötu og það er alveg rétt. Það er verið að setja peninga út í hagkerfið á þeim tíma þegar hagkerfið þolir það illa. Það mun auka þenslu í samfélaginu og mun kalla á gagnaðgerðir Seðlabankans. Það er ekki slaki í hagkerfinu núna. Ef þessi aðgerð hefði átt sér stað meðan slaki var í hagkerfinu hefði það kannski horft öðruvísi við. Það er ekki slaki í hagkerfinu. Þessi aðgerð mun kalla á gagnaðgerðir Seðlabankans, mun kalla á hærri vexti, meiri verðbólgu, veikara gengi, minni fjárfestingar.

Hvaða skatta á að hækka eða hvar á að skera niður í ríkisrekstri til að auka aðhaldsstig ríkisfjármálanna til að vinna gegn þessum neikvæðu áhrifum? Það er óhjákvæmilegt að gera það og það er auðvitað vítavert af meiri hluta nefndarinnar að koma þá ekki hreint fram með tillögur í því efni, og af ríkisstjórnarmeirihlutanum, og segja hvar nákvæmlega menn ætla að skapa þetta rúm í ríkisfjármálunum til að vega upp á móti þessari aðgerð, því að aðgerðin samrýmist ekki óbreyttri ríkisfjármálastefnu, það er alveg augljóst mál. Hún kallar á aðgerðir í ríkisfjármálum.

Virðulegi forseti. Nefndin gerði enga greiningu á efnahagslegum áhrifum aðgerðarinnar og hún jók umfangið hvað varðar séreignarsparnaðinn milli funda og hafnaði beiðni okkar í minni hluta nefndarinnar um að fá þá alla vega gesti til þess að tjá sig um þá umfangsaukningu aðgerðarinnar. Þetta er algjörlega óboðleg framganga og það er ljóst að ef það frumvarp sem nú liggur fyrir þinginu um opinber fjármál væri orðið að lögum gæti nefndin ekki hegðað sér svona, þá gæti ríkisstjórnarmeirihlutinn ekki gengið fram á þennan hátt. Það er að sjálfsögðu allt gott og blessað af hæstv. fjármálaráðherra að koma hér eins og fitubolla sem þráir megrunarkúr og lofa bót og betrun í fyllingu tímans, að hann muni alveg algjörlega fara eftir lögum um opinber fjármál þegar búið er að setja þau, hann ætli bara að fá að éta yfir sig í smátíma fyrst.

Þetta virðist vera síðasta ofátið sem þessi ríkisstjórn ætlar að efna til áður en hún fer á langan kartöflukúr aga í opinberum fjármálum. Ég á eftir að treysta því og sjá það gerast. Það er auðvitað hræðilegt að sjá ríkisstjórn byrja á þennan hátt. Sjálfstæðisflokkurinn engist í samfélaginu, hrynur í fylgi og það er að teikna sig upp fyrir stuðningsmönnum Sjálfstæðisflokksins að aftur hefur þessi flokkur keypt setu í ráðherrastólum dýru verði í samstarfi við Framsóknarflokkinn. Á tíu ára afmæli síðasta ábyrgðarleysisfyllirís þessara tveggja flokka með algjörlega fráleitum stjórnarsáttmála 2003 sem leiddi okkur lóðbeint í hrun er leikurinn endurtekinn 2013 og allt er falt fyrir völd, efnahagslegur stöðugleiki, skynsamleg hagstjórn, allt er falt fyrir völd.

Það er hins vegar hrósvert að kjósendur Sjálfstæðisflokksins virðast vera betur vakandi núna en þeir voru fyrir tíu árum síðan og senda flokknum skýr skilaboð, og það er líka virðingarvert að sjá þingmenn flokksins standa hér í þingsölum og halda málefnalegar ræður gegn þessu máli, varaþingmenn flokksins, beita sér á opinberum vettvangi.

Það er ekki hægt að taka ríkisstjórn alvarlega sem segir að efnahagsstefna hennar felist í aga í ríkisfjármálum og nýrri lagaumgjörð um opinber fjármál þegar fyrsta verk hennar á sviði efnahagsmála er að koma með aðgerð sem slær öll fyrri met í umfangi, í efnahagslegum millifærslum, án nokkurrar efnahagslegrar greiningar, aðgerð sem mundi aldrei standast hinn nýja lagaramma, mundi aldrei verða möguleg ef hinn nýi lagarammi væri orðinn að veruleika.

Virðulegi forseti. Í nefndarálitinu freista ég þess að rekja þá útreikninga sem hafa komið fram af hálfu Seðlabankans um áhrif á vaxtastig. Það er ljóst að Seðlabankinn mun hækka vexti í framhaldi þessarar aðgerðar. Hann er búinn að segja það, hann er búinn að lýsa því yfir og það liggur skýrt fyrir. Það þýðir lítið fyrir hv. þm. Frosta Sigurjónsson að hrista höfuðið úti í sal (Gripið fram í.) því að það er ósköp einfaldlega þannig að Seðlabankinn er búinn að segja það, hann er búinn að segja það. Peningastefnunefndin er búin að segja það. (Gripið fram í.) Það sýnir afneitunina hjá stjórnarmeirihlutanum að formaður efnahags- og viðskiptanefndar skuli neita að taka þær staðreyndir gildar og hafi sínar eigin heimatilbúnu hagfræðikenningar um áhrif þessa frumvarps. Það verður einfaldlega að horfa á staðreyndirnar og sjá hvað Seðlabankinn sjálfur segir. Það hefur ekki farið fram kostnaðar- og ábatagreining á aðgerðunum. Það hefði verið nauðsynlegt, það hefði verið mjög mikilvægt, og í öllu falli að freista þess að greina þá grundvallarþætti sem ég óskaði eftir í ítrekuðum skýrslubeiðnum mínum til hæstv. forsætisráðherra og fékk aldrei svör við. Þessi skortur á heildarupplýsingum um heildaráhrif aðgerðanna er mjög ámælisverður.

Svo er hægt að hafa orð um það líka að skuldaniðurfellingarnar greiðast inn á lán á 1. veðrétti og að greiðslujöfnunarreikningar greiðast upp fyrst. Hvorugt er nauðsynlegt. Hvorugt er heppilegt fyrir skuldugt fólk með þunga greiðslubyrði. Í flestum tilvikum eru lán á seinni veðréttum með hærri vexti og því væri fólki meiri akkur að greiða þau hraðar niður. Það er ekkert sem kallar á að greiðslujöfnunarreikningarnir séu greiddir upp hraðar en gert er ráð fyrir í gildandi lögum nema fólk svo kjósi og sjálfsagt hefði verið að gefa fólki einfaldlega val um það hvort það vildi greiða fyrst upp greiðslujöfnunarreikningana en gefa sér ekki að það væri vilji fólks.

Ég vil að síðustu segja að mér finnst það mjög umhugsunarvert, sérstaklega í ljósi þeirra orða sem hæstv. fjármálaráðherra hefur ítrekað haft um mikilvægi aga í ríkisfjármálum en hann hefur meira að segja sagt að agi í ríkisfjármálum eigi að geta komið í staðinn fyrir efnahagsstefnuna, það þurfi ekki efnahagsstefnu í landinu heldur sé nóg að lofa aga í ríkisfjármálum, þá er það sérstaklega ámælisvert að það komi inn frumvarp af þessum toga með fordæmalausum peningaútlátum úr ríkissjóði án efnahagslegra grunngreininga, án þess jafnvel að tínd séu til gögn sem ætti að vera hægt að tína til, samanber reynslu okkar frá haustinu 2010, án þess að málið hafi fengið eðlilegan umþóttunartíma í þingnefnd. Þó svo að haldnir hafi verið nokkrir fundir um málið er tíminn sem fór í málið fráleitlega stuttur og algjörlega fáránlegt að ekki hafi gefist betri tími til umfjöllunar málsins í þinginu. Maður hlýtur að spyrja sig: Er hægt að treysta ríkisstjórn sem gengur fram á þennan hátt og er hægt að treysta því að eitthvað verði frekar að marka heitstrengingar hennar um aga í ríkisfjármálum á síðari stigum fyrst henni hefur svo gersamlega brugðist bogalistin í þessu máli?

Það er líka vert að minna á það að málið hefur breyst nokkuð frá því sem kynnt var í Hörpu 30. nóvember sl. Þá gerðu sérfræðingar ráð fyrir ýmiss konar hömlum í ferlinu, m.a. að endurfjármögnun ætti ekki að vera möguleg á þessu fjögurra ára tímabili. Ef fólk sækti um leiðréttinguna gæti það ekki endurfjármagnað og jafnvel voru hugmyndir um að fólk ætti ekki að geta skipt um húsnæði á þessum tíma. Engar slíkar hömlur eru lengur í þessu, en fulltrúar sérfræðingahópsins komu í þingflokk Samfylkingarinnar og útskýrðu að gert væri ráð fyrir því að þeir sem þæðu þetta úrræði mundu ekki geta endurfjármagnað á þessu fjögurra ára tímabili. Þetta voru aðgerðir sem voru allar ætlaðar til þess að draga úr efnahagslegum áhrifum aðgerðarinnar, neikvæðum efnahagslegum áhrifum hennar.

Síðan hefur því öllu verið skolað niður og við stöndum því frammi fyrir aðgerð sem er fordæmalaus, þar sem engar girðingar eru til þess að reyna að draga úr neikvæðum efnahagslegum áhrifum hennar og sem ekki hefur verið greind til fulls af neinum greiningaraðila.

Virðulegi forseti. Að síðustu vil ég þakka þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs fyrir að hafa haft hugsun á því að óska eftir lengdum ræðutíma í þessari umræðu. Ég skil eftir tíu mínútur ónotaðar af ræðutíma mínum, en ég satt að segja áttaði mig ekki á því fyrr en ég hóf mál mitt hversu mikilvægt er að hafa almennilegan tíma til að ræða þetta mál. Ég vil sérstaklega þakka þeim fyrir að hafa haft hugsun á því að gera okkur kleift að ræða málið af einhverjum myndarbrag.