143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[22:00]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi ber stjórnarmeirihluti á hverjum tíma ábyrgð á því að aðgerðir sem hann stendur fyrir samrýmist efnahagsmarkmiðum á hverjum tíma. Þau geta verið breytileg frá einum tíma til annars og aðstæður í hagkerfinu geta verið breytilegar frá einum tíma til annars. Það er sannarlega þannig núna að tími slaka í hagkerfinu er liðinn og aðgerðin eins og hún er búin út af ríkisstjórninni núna yrði neikvæð.

Það er rétt að hafa í huga að ef leið Samfylkingarinnar hefði verið farin væri verið að mæta fólki sem er í mjög neikvæðri skuldastöðu. Ástæðan fyrir því að efnahagsleg áhrif þessarar aðgerðar eru neikvæð er sú að miklir peningar fara til fólks sem er í mjög góðum málum, er hlutfallslega mjög lítið skuldsett og á gríðarlegar eignir. Það fólk mun nýta aukið svigrúm til aukinnar eyðslu, það segir sig sjálft. Útbúnaður aðgerðarinnar gerir því að verkum að efnahagsleg áhrif hennar á tímum þenslu í hagkerfinu eins og er núna verða sérstaklega neikvæð. Það er hægt að búa til skuldaleiðréttingaraðgerðir með öðrum hætti þannig að (Forseti hringir.) áhrifin af þeim séu ekki jafn neikvæð og það er líka hægt að láta aðgerðir koma til framkvæmda á tíma þar sem þær hafa minna neikvæð áhrif.