143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[22:04]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Árna Páli Árnasyni fyrir ræðuna. Í ræðunni skilgreinir hann hugmyndir sínar um forsendubrest og hann telur að hann sé eingöngu þegar eignajafnvægið raskast, þ.e. ef lán hækkar en fasteignamatið hækkar ekki, ef ég skil hann rétt.

Nú er það þannig að ef fólk tekur lán fer það í greiðslumat. Greiðslumatið er byggt á ákveðnum tekjum og fólk fær lán miðað við þær tekjur sem það hefur og miðað við hvað það borgar. Hvað með þann hóp sem hefur lent í því að greiðslubyrðin hefur aukist og það er ekki lengur með greiðslugetu til að standa skil á skuldbindingum sínum? Er það ekki forsendubrestur? Hvað er það þá?