143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[22:08]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. 110%-leiðin var ekki útdeiling fjár úr ríkissjóði. Hún var ekki útdeiling skattfjár. Hún fólst í því að bankar horfðust í augu við tap og bankar borguðu það úr eigin vasa. Kröfuhafar í banka borguðu það, ekki almenningur í landinu, nema í tilviki Íbúðalánasjóðs að því leyti sem Íbúðalánasjóður þurfti líka að horfast í augu við tapaðar kröfur. Krafa umfram 110% er einskis virði. Það var verið að færa þær kröfur niður.

Ég spyr á móti: Hvar eru efnisrökin fyrir því að stóreignafólk sem borgar auðlegðarskatt fái 4 milljónir úr ríkissjóði? Til hvers? Af hverju má ekki setja mörkin við mjög háar tekjur eða mjög miklar eignir? Af hverju þarf þessi aðgerð að vera almenn? Af hverju þarf að láta fólk sem skuldar lítið í stóru húsi og á miklar aðrar eignir fá peninga úr ríkissjóði? Hver eru rökin fyrir því? Þessi aðgerð virðist hafa annað markmið en að (Forseti hringir.) leiðrétta greiðsluvanda og skuldavanda fólks. Hún virðist hafa það markmið að flytja enn og aftur (Forseti hringir.) peninga til þeirra sem best standa í landinu á kostnað venjulegs fólks.