143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[22:09]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Páli Árnasyni fyrir framsögu hans og ræðu þar sem hann ræðir frumvarp til laga um leiðréttingu verðtryggðra fasteignalána, en því er ætlað að ná fram höfuðstólslækkun verðtryggðra húsnæðislána.

Hv. þingmaður fór mikinn, þetta var fínasta ræða hjá honum, og nefndi m.a. að ekki væri slaki í hagkerfinu. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að það er minni slaki. Þessi aðgerð hefði betur farið fram 2009 þegar við í Framsóknarflokknum boðuðum þessa aðgerð.

Varðandi útgjöld verða endanleg útgjöld ákvörðun Alþingis í fjárlögum hvers árs og sjálfbærni og aðhalds gætt í stjórnun ríkisfjármála eins og kemur mjög glögglega fram í meirihlutaáliti og framsögu hv. þm. Frosta Sigurjónssonar. Við hv. þingmaður hljótum að vera sammála um að mikilvægt sé að aðhalds verði gætt.