143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[22:12]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það verður einhver úr stjórnarmeirihlutanum að treysta sér til að svara því af hverju megi ekki setja tekju- og eignamörk í þessu máli. Ég bíð eftir því að einhver hafi hugrekki til þess að koma og útskýra það af hverju forríkt fólk og stóreignafólk verði að fá peninga af almannafé, af hverju það eyðileggi aðgerðina að setja einhver hófleg mörk. Ég mun leggja til á eftir breytingartillögu sem felur í sér að 10% ríkasta fólksins fái ekki út úr þessari aðgerð og fólk með skuldlausa eign yfir 30 milljónum fái ekki. Ég vil fá að heyra rök fyrir því af hverju það er nauðsynlegt að þetta eignafólk fái út úr aðgerðinni.

110%-leiðin enn og aftur. Hún var afskrift krafna sem var ekki veð fyrir. Hv. þingmaður verður að skilja það. Og það voru ekki peningar úr ríkissjóði, það var ekki almannafé, var ekki skattfé; það voru bankar sem horfðust í augu við óhjákvæmilegt tap. Hinn valkosturinn var að halda áfram að setja fólk í þrot. Það hefði kostað mikinn pening og mikinn tíma eða að leysa til sín eignir. Við vorum búin að búa til greiðsluaðlögun þannig að fólk gat komist frá eign. (Forseti hringir.) Þess vegna er 110%-leiðin leið til þess að bankar, með fljótvirkum hætti, lækki skuldastöðu að raunvirði eigna. (Forseti hringir.)