143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[23:08]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Guðmundur Steingrímsson) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var af einföldum ástæðum. Okkur þótti fullkomlega sjálfsagt að ríkisstjórnin greindi sjálf afleiðingar og mögulegar forsendur þeirra kosningaloforða sem hún hafði talað um í kosningunum. Við sáum enga ástæðu til að setja því eitthvað stólinn fyrir dyrnar. Mér fannst þetta í rauninni mjög furðuleg þingsályktunartillaga, ég sá ekki af hverju ríkisstjórnin þurfti að spyrja þingið að þessu. Það var nú bara svona á þeim forsendum að við sáum ekki hvernig — áttum við að banna ríkisstjórninni að fara í greiningarvinnu á sínum eigin kosningaloforðum? Ég gat ekki séð af hverju við áttum að gera það.

Hins vegar er afraksturinn vonbrigði og við sögðum allan tímann að þessi stuðningur væri nú bara svona. Við höfðum ekki á móti greiningu, við erum ekki á móti upplýsingum í Bjartri framtíð heldur þvert á móti, við fögnum þeim. En niðurstöðurnar komu ekki á óvart og breyta ekki afstöðu okkar til málsins.