143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[23:12]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni fyrir hans ítarlegu framsögu í minni hluta hv. efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarpið sem við ræðum hér, um leiðréttingu verðtryggðra fasteignalána.

Hv. þingmaður ræddi efnahagsmál í víðu samhengi og ég get verið honum sammála um margt sem hann kom inn á, það var margt skynsamlegt. Hv. þingmaður kom meðal annars inn á að mjög margt hefði verið gert á liðnu kjörtímabili.

Ein efnahagsleg staðreynd er sú að í árslok 2013 voru skuldir heimila 108% af vergri landsframleiðslu. Þar sem heimilin eru önnur af tveimur meginefnahagsstoðum hagkerfis, í haglíkönum sem ég veit að hv. þingmaður þekkir, og hann veit að hátt skuldahlutfall er orsakaþáttur fyrir því að hagkerfi getur verið lengur á leið út úr samdráttarskeiði: Telur hv. þingmaður það virkilega (Forseti hringir.) eðlilega skuldsetningu og ekki kalla á aðgerðir?