143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[23:13]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Guðmundur Steingrímsson) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað er 108% skuldahlutfall heimila miðað við landsframleiðslu áhyggjuefni. Það er hins vegar ekki einsdæmi, það er til dæmis mjög svipað og skuldahlutfall í Hollandi, svo að dæmi sé tekið. Það er á pari við skuldahlutfallið eins og það var hér á Íslandi 2006. En hvaða aðgerða er þörf?

Ég vil meina að þetta sé ósjálfbær aðgerð og hún muni jafnvel leiða til þess að skuldsetning fari aftur upp á sama stað, vegna þess einfaldlega að heimili eru líkleg til þess, miðað við söguna, að nýta veðréttinn til skuldsetningar vegna skorts á haldbæru fé. Ég lít svo á að þörf sé á því að nálgast þessi mál frá allt öðrum enda. Ég held að íslenskt samfélag, eins og skýrslur hafa sýnt, einkennist af of lítilli framleiðni, við vinnum of mikið en berum of lítið úr býtum miðað við það sem við vinnum. Það er einkenni á íslenskum vinnumarkaði.

Ég held að það skorti hér atvinnugreinar sem einkennast (Forseti hringir.) af hærri framleiðni, meiri tekjum, (Forseti hringir.) betri forsendum launþega til þess að (Forseti hringir.) leggja til hliðar og þar með borga niður skuldir sínar. Ég held að forsendurnar (Forseti hringir.) í íslensku atvinnulífi séu vondar, þær þurfi að laga. Við erum ekki að gera það með þessu.