143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[23:16]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Guðmundur Steingrímsson) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er akkúrat klausan sem ég hef áhyggjur af. Ég les þessa klausu þannig, og styðst líka við svör hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra og hæstv. forsætisráðherra við fyrirspurnum mínum hér, að þessi útgjaldaliður, sem við ræðum núna, upp á 20 milljarða á fjórum árum, muni alltaf njóta forgangs. Til þess að fjárlögin verði hallalaus og þá vissulega sjálfbær þá verði skorið niður annars staðar en ekki í þessum útgjaldalið. Þess vegna er lögð áhersla á það þarna að Alþingi hafi vald til að breyta fjárlögum og hitt og þetta og samþykkja þau, en þessi útgjaldaliður mun njóta forgangs. Það veldur mér miklum áhyggjum vegna þess að mér finnst hann ekki vera þess eðlis að hann eigi að gera það miðað við alla þörfina sem er annars staðar.

Aðeins varðandi skuldastöðu heimilanna, við verðum að ráðast á það verkefni með langtímahugsun og sjálfbærni í huga. Það er ekki rétt leið að ráðast á þetta verkefni með því einfaldlega að láta ríkisvaldið taka (Forseti hringir.) yfir hluta af þessum einkaskuldum. Það er miklu betra að fara þá leið að bæta forsendur heimilanna (Forseti hringir.) með stöðugleika, framleiðniaukningu og nýr gjaldmiðill yrði til dæmis mikil kjarabót.